Upplifun okkar á umhverfi og aðstæðum getur á stundum verið slík að við eigum ekki auðvelt með að vera þakklát. Þetta á einnig við þegar atvik verða sem við köllum slys eða þegar veikindi ber að höndum. Í slíkum kringumstæðum er þakklæti okkur sjaldnast efst í huga. Þegar frá líður verður okkur hins vegar stundum ljóst að það sem við upplifðum sem erfiðleika, var í raun og veru dulbúin blessun. Það er ef til vill það sem átt er við þegar sagt er að tíminn lækni öll sár. En í raun og sanni er það sjónarhorn okkar og upplifun sem breytist.
Láttu reyna á þakklætið
Mér er tamt að tala um þakklæti og þeir sem koma til mín í markþjálfun kannast við nokkuð sem ég kalla þakklætisdagbókina. Það er einfaldlega bók með auðum síðum sem ég hvet fólk til að nota og skrifa niður það sem það er þakklátt fyrir.
Með því að temja okkur þakklæti, öðlumst við nýtt sjónarhorn í erfiðum aðstæðum. Við verðum fljótari að líta á aðstæður sem við höfum ekki stjórn á, með augum þakklætis, þegar við förum að spyrja okkur hvað við getum þakkað fyrir. Þannig reynist það okkur auðveldara að sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt auk þess sem við öðlumst kjark til að breyta því sem við getum breytt.
Lífið er allskonar
Það er mín einlæga trú að við séum hér á jörðinni til að læra, vaxa af lærdómi okkar og deila með öðrum. Þó svo að sumir trúi því ekki að við getum lært af reynslu annarra, bendi ég á að reynsla okkar er reynsla heimsins ef svo má segja. Einhvers staðar er einhver sem hefur gengið í gegnum það sama og þú. Öll förum við í gegnum dimman dal einhvern tíma á ævinni og flest okkar sjáum svo sólina koma upp að nýju.
Á slíkum tímum höfum við val um að vera þakklát fyrir það góða í lífi okkar á meðan við göngum í myrkrinu. Með því móti verður þrautargangan styttri og ljóstýran aldrei langt undan.
Hvað er myrkur?
Hefurðu einhvern tíma velt því fyrir þér hvað myrkur er í raun og veru? Albert Einstein sagði að myrkur væri ekki til. Hins vegar benti hann á að fjarvera ljóss orksakar myrkur. Það finnst mér mögnuð staðreynd.
Einstein sagði líka að innsæið væri það eina sem hefði raunverulegt gildi. Oft reynist innsæið okkur vel þegar við ákveðum að vera þakklát í aðstæðum þar sem þakklæti er okkur ekki efst í huga. Þakklæti hefur nefnilega þann eiginleika að geta leyst úr læðingi lausnir sem okkur hefði ekki órað fyrir.
Hagnýt nálgun
Hugsaðu um aðstæður sem þú hefur verið í og sitja í þér af einhverjum ástæðum. Þú getur líka notað núverandi aðstæður þínar sem dæmi ef þú upplifir að þú farir um dimman dal og ljóstýran sé víðs fjarri.
Náðu í blað og penna og byrjaðu á að draga línu til að skipta blaðinu í tvo dálka. Skrifaðu nú allt sem einkennir aðstæðurnar í vinstri dálkinn. Gættu þín á að tilgangurinn er ekki sá að kasta rýrð á annað fólk eða fyrra sig ábyrgð á aðstæðunum sem þú ert í eða varst í. Tilgangurinn er að komast að því hvernig þú getur beitt þakklætinu til að tendra ljós í dalnum svo útsýnið blasi við þér. Í hægri dálkinn skaltu skrifa niður þau atriði sem þú getur þakkað fyrir og tengjast aðstæðunum. Ef hugsunin um þakklæti er þér framandi í þessu samhengi og þú áttar þig ekki á því í fljótu bragði hvað þú gætir þakkað fyrir, skaltu staldra við og gera þitt besta til að snúa hlutunum á hvolf. Þú getur að minnsta kosti þakkað fyrir þann lærdóm sem þú getur dregið af aðstæðunum.
Með þessu móti muntu geta fetað veginn að dalsmynninu og tekið ákvarðanir sem byggja á vali. Þar er ekki í boði að upplifa sig sem þolanda kringumstæðna. Nei, þar er aðeins í boði að axla ábyrgð á sjálfum sér og að þakka fyrir tækifærið sem lífið hefur fært þér til að læra og vaxa. Næsta skref er að deila því sem þú hefur lært með öðrum.