c

Pistlar:

4. apríl 2016 kl. 12:51

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Ábyrgð leiðtogans

Hugtakið ábyrgð virðist menningarbundið að einhverju leyti. Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs frá árinu 1988 er sá ábyrgur sem svarar til ábyrgðar. Það að svara til ábyrgðar virðist þó síður en svo liggja beinast við hjá mörgum þeim sem gegna ábyrgðarstöðum og skilgreina sig sem leiðtoga.

Láttu það byrja hjá þér

Það er gömul saga og ný að verkin tala. Þetta er þekkt fyrirbæri í barnauppeldi og flestir foreldrar hafa rekið sig á að það skilar betri árangri að vera góð fyrirmynd heldur en að segja börnum og unglingum hvernig gera eigi hlutina. Ef orð og gjörðir fara ekki saman, er líklegra að börnin upplifi að ósamræmið sé hrópandi. Það kann því betri lukku að stýra að vera samkvæmur sjálfum sér. Verkin lofa nefnilega meistarann.

Það sama á við þegar við erum stjórnendur á vinnustað eða gegnum öðrum leiðtogastöðum. Sú ákvörðun að axla ábyrgð á sjálfum sér, er mikilvægasta ákvörðun þeirra sem vilja vera við stjórnvölinn í eigin lífi og ef við ætlum okkur að vera marktækir leiðtogar, þurfum við að fjarlægja flísina úr eigin auga áður en lengra er haldið.

Glugginn og spegillinn

Hinn snjalli leiðtogaskríbent, Jim Collins, höfundur bókarinnar Good to Great, segir að frábær leiðtogi sé sá sem hefur kjark til að horfa í spegil þegar eitthvað bjátar á. Hann bendir á að það skili engu að horfa út um gluggann í leit að sökudólgi.

Þarna er ekki verið að vísa til þess að taka ábyrgð á öðrum eða axla ábyrgð á mistökum annarra. Nei, þarna er verið að vísa til þess að skoða sinn eigin hlut að málum og taka ábyrgð á því þegar mistök hafa átt sér stað.

Mistök og ábyrgð

Fæst gerum við ráð fyrir að aðrir séu fullkomnir og geri aldrei mistök. Flest gerum við einnig ráð fyrir að gera mistök af og til þó fólk sé misjafnlega í stakk búið að fyrirgefa sjálfu sér mistökin. Stór hluti fólks ber af þessum sökum mikla virðingu fyrir hugrekki þeirra sem axla ábyrgð á mistökum sínum og biðjast velvirðingar á þeim. Þetta á við bæði um þá sem biðjast fyrirgefningar þegar þeir hafa gert eitthvað á hlut annarra, hvort sem það er í vinnu eða persónulegu samhengi og einnig um þá sem axla ábyrgð opinberlega.

Hugrekkið til að biðjast forláts öðlast þó aðeins þeir sem geta horfst í augu við sjálfa sig í umræddum spegli. „Hver er minn hlutur?“ er krefjandi spurning og það getur verið óþægilegt að svara henni. Hún krefst þess að við stöldrum við og skoðum hvort við höfum varpað ábyrgð á aðra. Hún krefst þess einnig að við skoðum hvort við höfum hafnað ábyrgð sem okkur var falin. Hún krefst hreinskilni, heiðarleika og fullvissu um að við búum í heimi þar sem allir gera mistök. Hins vegar er það engin afsökun fyrir að taka ekki ábyrgð á mistökum okkar. Þvert á móti er það tækifæri til vaxtar og lærdóms, hvort sem það er á einstaklingsgrundvelli eða á grundvelli samfélagsins alls.

Umburðarlyndi er forsenda farsældar

Smæð samfélaga eða stærð er oft notuð sem mælieining á heilbrigði þeirra. Margt er útskýrt í því samhengi og margar afsakanir fyrir mannlegri hegðun eru gefnar út á grundvelli smæðar. „Æi, já þetta er nú bara svona í litlu samfélagi.“ Vandinn er hins vegar sá að þessar afsakanir hrökkva skammt ef ætlunin er að breyta hlutunum til batnaðar. Það erum við sem búum til samfélagið og það er ekkert án okkar. Alveg eins og í öðrum félögum þá höfum við réttindi og skyldur. Hvorugt er til án hins.

Á öllum Norðurlöndunum er nú virk umræða um gildi, samfélagsgerð og skyldur. Að miklu leyti er þessi umræða til komin vegna þess mikla fjölda fólks sem hefur leitað ásjár á Norðurlöndunum síðastliðin ár. Einnig vegna þeirra efnahagsþrenginga sem steðjað hafa að Evrópu og áhrifanna sem gætir a.m.k. í Skandinavíu. En þegar talið berst að skyldum og ábyrgð, verður umræðan gjarnan stjórnmálaleg. Hún snertir á flokkspólitískum málum en þó ekki nema að hluta til því hún snýst fyrst og fremst um að það kveður við nýjan tón í stjórnmálum almennt í nyrsta hluta Evrópu. Þau gildi sem samfélögin byggðu á í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar eru ekki lýði enn í dag nema að hluta til. Norðurlandasamningurinn sem gerður var árið 1952 byggði á því að frændþjóðir styddu hver við aðra og auðvelduðu uppbyggingu með aðgengi Norrænna borgara að vinnumarkaði svæðisins í heild. Hann byggði á viljanum til að skapa einingu þar sem hafði ríkt ringulreið og sundrung á stríðstímanum. Hann byggði á vináttu og kærleika. Ef við viljum samfélag sem byggir á þeim kjarnagildum sem norrænt samfélag á að byggja á, þá þurfum við sem einstaklingar að staldra við og axla ábyrgð. Hvert okkar þarf að hafa kjark til að horfa í spegil í stað þess að horfa út um gluggann í leit að sökudólgi. Góðu fréttirnar eru þær að það er góð tilfinning að axla ábyrgð á sjálfum sér.

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira