c

Pistlar:

13. júní 2016 kl. 15:17

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Peningamegrun í sumar?

Mín fyrstu kynni af fyrirbærinu megrun voru fyrir tilstilli móður minnar á fyrri hluta níunda áratugarins. Hún hafði fest kaup á bókinni Scarsdale kúrinn og fylgdi því sem þar stóð skrifað í hvívetna.

Bókarkápan er mér einstaklega minnistæð en hana prýddi grafísk mynd af þéttholda eldri konu sem sat á bekk og sökkti tönnunum í stærðeflis hamborgara. Skammt frá bekknum gat að líta spengilega unga konu, íklædda íþróttafatnaði, sem gerði sig tilbúna til að henda uppnöguðu epli í ruslatunnu. Tvíhyggjan sem gjarnan fylgir fráhaldi svífur yfir vötnum og myndrænu skilaboðin höfða til matarsamviskunnar.

Tilgangurinn með þessu litla endurliti og þá helst myndræna uppdrættinum er að yfirfæra megrunarfyrirbærið yfir á fjármálin. Svo einfalt er það. Ég vona að forsvarskonur megrunarlausa dagsins fyrirgefi mér samlýkinguna því í mínum huga helgar tilgangurinn meðalið.

Átaksverkefni eða lífstílsbreyting?

Flestir vita að megrun er átaksverkefni, sem getur leitt til varanlegra breytinga en gerir það þó sjaldnast. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að það gefur betri raun að breyta um lífstíl. Að temja sér að velja hollan mat og hreyfa sig.

Hins vegar getur fráhald, fasta eða hreinsun orðið upphafið að breyttri líðan og þannig leitt af sér lífstílsbreytingu. Afraksturinn er aukin orka og betri heilsa til langs tíma.

Þetta má einnig til sanns vegar færa þegar kemur að peningamálunum. Þó óhætt sé að segja að færri hafi reynslu af því að fara í peningamegrun, getur hún að sama skapi orðið upphafið að lífstílsbreytingum á fjármálasviðinu.

Hvað er peningamegrun?

Fyrirbærið peningamegrun er þegar þú tekur meðvitaða ákvörðun um að nýta þér aðferðir gjörhygli (e. mindfulness) í fjármálunum. Með öðrum orðum að öðlast betri vitund um hvernig þú notar peningana þína og í framhaldinu gera þær breytingar sem þú þarft að gera til að geta orðið fjárhagslegur leiðtogi í eigin lífi.

Fyrsta skrefið í þessa átt er að nota litla vasabók og skrifa niður dagsetningu, hvað þú kaupir og hvað það kostar. Sumum kann að finnast þetta mjög gamaldags ráð og hafa jafnvel spurt sig hvort undirrituð hafi aldrei heyrt um heimabanka og bankayfirlit. En sannleikurinn er sá að með því að skrifa niður í hvað peningarnir fara, öðlastu nýja sýn á fjármálin. Ég skora á þig að prófa í mánuð og sjá hvað gerist.

Annað gott ráð fyrir áhugasama er að hafa að minnsta kosti einn dag í viku þar sem þú notar enga peninga. Eða með öðrum orðum, þann dag eyðir þú engu. Þarna koma skipulag og hugmyndaauðgi að góðum notum. Ég er nefnilega ekki að leggja til að neinn svelti. Hins vegar gætirðu tekið með þér nesti þennan dag í stað þess að kaupa þér tilbúinn mat á vinnutíma. Þú gætir einnig lagað þér kaffi og sett það í götumál í stað þess að koma við á kaffihúsinu.

Fyrir þá sem kunna vel við áskoranir, þá geta dagarnir einnig verið fleiri en einn í viku. Prófaðu þig áfram og mældu árangur þinn. Það virkar hvetjandi!

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira