c

Pistlar:

6. júlí 2016 kl. 12:14

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Stórlaxar og skítseiði

Þegar fréttir bárust af forsvarsmönnum Íslensku þjóðarinnar á vordögum í tengslum við afhjúpun á Panamaskjölunum, kom tíu ára sonur minn með dásamlega lausn. „Mamma mín, þetta er allt í lagi. Við tölum bara ensku í viku og svo verður þetta gleymt.“ Hann reyndist sannspár því skömmu síðar snéri hópur snillinga í takkaskóm vörn í sókn í orðsins fyllstu merkingu.

Árla morguns sveif ég glaðbeitt inn í anddyrið á leikskóla dóttur minnar. Ég var búin að reikna út klukkan hvað væri líklegast að ég myndi mæta sem flestum foreldrum sem væru á leið í leikskólann með sín börn. Útreikningarnir stóðust og hamingjuóskirnar streymdu á móti mér. Ég fylltist stolti um leið og ég tók undir með Norðmönnunum að Íslendingar væru snillingar í fótbolta.

Ég hitti einn sem ég hafði aldrei talað við áður. Hann spurði mig hvort ég vissi hvar hann gæti komist að því hvaðan íslensk langamma hans væri. Hann langaði að vita hvort hann væri skyldur einhverjum í landsliðinu.

Já, það hefur verið virkilega smart að vera Íslendingur síðastliðnar vikur. Allt annað en í vor þegar ég mætti á leikskólann með heyrnartólin í eyrunum, hettuna á höfðinu og forðaðist augnsamband við hina foreldrana sem horfðu vorkunnaraugum á vesalings manneskjuna frá landinu þar sem stjórnmálamenn áttu peninga í skattaskjólum. Svoleiðis gerist ekki í Noregi.

En það hefur verið skemmtilegt síðastliðnar vikur að eiga blátt vegabréf og tala með íslenskum hreim.

Dýrðarljómi og dómharka

Þjóðerniskennd er forvitnilegt fyrirbæri. Sem íslenskur útlendingur um mislangan tíma síðastliðna tvo áratugi, hef ég velt þjóðerniskennd fyrir mér með ýmsum hætti. Bæði frá sjónarhóli Íslendingsins, heima og erlendis og einnig í gegnum fjölda fólks sem ég hef kynnst á þeim árum sem ég hef dvalið í mismunandi löndum.

Ég hef búið í nálægð við fólk sem skilgreinir sig útfrá þjóðerni sínu og notar það jafnvel sem afsökun fyrir hegðun ýmiss konar. Menningu þjóða má ef til vill skýra með þessum hætti að mörgu leyti en ég læt mér fróðari sérfræðinga um það. Í þessum pistli birtast aðeins vangaveltur sem eru til þess ætlaðar að varpa ljósi á einstaklinginn í samfélaginu. Þig og mig og þær röksemdir sem við notumst gjarnan við til að þurfa ekki að taka ábyrgð á hegðun okkar. Við erum bara svona.

Við – Íslendingar erum duglegir og gefumst aldrei upp. Við höfum þurft að berjast með vindinn í fangið, í stórsjó og gosösku. Það brýtur ekkert á okkur.

Er það ekki eitthvað á þessa leið sem við skilgreinum okkur?

En er hin hliðin á dýrðarljómanum ef til vill dómharka? Gerir smæðin það að verkum að við dæmum harðar en stærri þjóðir gera?

Ég velti þessu fyrir mér er ég fylgdist með aðför fjölmiðla að persónu manns nokkurs sem hafði milligöngu um miðakaup á síðasta leik landsliðsins á EM. Áður en honum hafði gefist tækifæri til að skýra sína hlið málsins, höfðu netmiðlar tekið upp þráðinn frá samfélagsmiðlunum. Óstaðfestar fréttir héðan og þaðan byggðar á einhliða frásögnum. Þetta er vissulega ekki óalgengt í íslenskum fjölmiðlum. Áður fyrr gat fólk treyst því að einhliða frásagnir ættu einungis heima í hinni svokölluðu gulu pressu en nú virðist öldin önnur.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna við kjósum að sveipa suma dýrðarljóma og hefja þá upp til skýanna á meðan við köstum rýrð á aðra og dæmum þá harðar en ástæða er til. Er þetta ávöxtur smæðarinnar? Gerum við meiri kröfur til annarra en við gerum til okkar sjálfra? Eða endurspeglar þessi menningarlega tilhneyging hræðslu okkar við að tengjast í gegnum hið sammannlega?

Ekki eins og við

Ein af grunnþörfum mannsins er að tilheyra. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem njóta ekki einingar við aðra í æsku, glíma gjarnan við afleiðingar þess svo árum skiptir. Í því ljósi er áhugavert að við skulum vera tilbúin til að dæma og jafnvel útiloka aðra. Ef til vill er það afleiðing þess að hræðast það að horfast í augu við dauðleika holdsins – eða okkar eigin breiskleika.

Grunnótti mannsins er jú að vera einn. Orson Welles skýrði það þannig að maðurinn fæðist einn, lifir einn og deyr einn. Leið okkar til að skapa tálmyndina um einingu væri einungis í gegnum vinskap og kærleika.

Í því ljósi ætti það að liggja beint við að nálgast umhverfi sitt útfrá kærleikanum en tilhneiging okkar flestra er þó að sjá krumpurnar í fari náungans frekar en að horfast í augu við okkur sjálf.

En hvaða þýðingu hefur það fyrir samfélagið? Fyrir samfélag þjóða og fyrir einstaklinginn í því samhengi? Ég er á þeirri skoðun að það sé kominn tími til að við horfumst í augu við sjálf okkur, hvert fyrir sig og tökum ábyrgð. Gerum tilraun til að nálgast umhverfi okkar með augum kærleikans. Það er vænlegri leið til skilnings og einingar. Samfélaginu til heilla og hamingju.

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira