Fyrri hluta dagsins í dag varði ég í návist fyrirfólks. Tilefnið var opinber heimsókn forseta Íslands til Noregs. Ég og fjölskylda mín vorum meðal þeirra sem fengum boð um að vera fyrir utan konungshöllina í Osló og taka á móti forsetahjónunum við upphaf heimsóknarinnar. Það var mikill heiður og mjög hátíðleg stund.
Ég þori, get og vil
Í kjölfarið var opinn fundur í Oslóarháskóla þar sem forsetafrúin, Eliza Reid var frummælandi. Efni fundarins var jafnréttismál og yfirskriftin: Kynbundin gjá á öld jafnra tækifæra.
Frú Eliza hóf mál sitt á að tala um kvennafrídaginn árið 1975 og sagði hann hafa markað mikil tímamót í jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna. Hún ræddi um þá staðreynd að Ísland trónir á toppnum á lista Alþjóðaefnahagsráðsins um jafnrétti meðal þjóða og sagði stolt frá nýrri löggjöf sem mun gera fyrirtækjum skylt að framfylgja launajafnrétti á Íslandi.
Hún lagði ríka áherslu á samstarf Norðurlandanna í jafnréttismálum og minntist á að við hefðum gjarnan tekið upp löggjöf hvert eftir öðru. Sem dæmi nefndi hún lög um feðraorlof sem Íslendingar riðu á vaðið með og hin Norðurlöndin fylgdu í kjölfarið. Einnig nefndi hún dæmi um lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja en sú löggjöf á rætur að rekja til Noregs og hefur síðan verið tekin upp á hinum Norðurlöndunum.
En betur má ef duga skal
Forsetafrúin sagði þó að kynbundið ofbeldi væri enn vandamál á Íslandi og að baráttan héldi áfram í þeirri von að binda endi á það. Hún benti einnig á að hlutur kvenna í fjölmiðlum væri enn rýr og þá sérstaklega hlutur kvenna af erlendum uppruna.
Hvað atvinnumálin varðar, sagði hún að bæði tæknigeirinn og sjávarútvegur væru greinar þar sem krafta kvenna nyti ekki við, nema að takmörkuðu leyti.
Hún vitnaði í herferð UN-Women, hann fyrir hana (e. He for She) og sagði hana gott dæmi um herferð þar sem unnið væri gagngert í því að brjóta staðalmyndir á bak aftur. Þá sýndi hún myndband úr herferðinni sem sýnir viðtal við ungan mann sem vinnur við hjúkrun. Sá sagðist gjarnan vilja taka þátt í að breyta þeirri ímynd sem hjúkrunarstarfið hefur sem kvennastarf. En aðeins 2% hjúkrunarfræðinga á Íslandi eru karlmenn.
Lagabreytingar
Líflegar pallborðsumræður spunnust í kjölfar ræðu forsetafrúarinnar. Mímir Kristjánsson, ritstjóri Klassekampen stýrði umræðunum. Þar tók fyrst til máls, Anne-Jorunn Berg sem er prófessor og stýrir rannsóknarsetri í kynjafræði við Oslóarháskóla. Anne-Jorunn benti á að til að snúa við kynjahalla meðal starfsfólks í umönnunarstörfum í heilbrigðisstétt, þyrfti að hækka launin. Hún sagði jafnframt að þær konur sem hæfu störf í stéttum sem væru hefðbundnar karlastéttir, hefðu gjarnan há laun.
Ragnhildur Helgadóttir, forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, sat í pallborði og talaði meðal annars um það þegar löggjafinn hefur breytt gangi mála í jafnréttisbaráttunni. Hún nefndi í því samhengi dæmi þess þegar feðraorlof var fest í lög og þau áhrif sem sú lagasetning hafði fyrir ungar konur á vinnumarkaði. Þá var það ekki lengur samskonar áskorun að vera kona á barneignaraldri á vinnumarkaði því karlmenn geta einnig tekið fæðingarorlof.
Jafnréttismálin sem útflutningsvara?
Sjálf hef ég gengið með kynjagleraugun á nefinu um langa hríð og hef einbeitt mér að fjárhagslegri valdeflingu kvenna undanfarin ár. Í ljósi þess velti ég því fyrir mér hversu dýrmætt það væri að geta sett reynslu okkar Íslendinga af jafnréttismálum í annað samhengi.
Það mætti gera með því að reikna út hversu mikill þjóðhagslegur ávinningur er af kynjajafnrétti. Þær upplýsingar mætti svo nýta sem hvata fyrir aðrar þjóðir til að stuðla að jafnrétti kynjanna.