Mjög líklega hefur yfirskrift pistilsins annað hvort vakið forvitni þína eða hneykslað þig. Hvort heldur sem er, þá er tilganginum náð og tilgangurinn helgar meðalið í þessu tilfelli.
Nýtt samhengi
Ég man þegar ég heyrði þessa spurningu í fyrsta skipti þegar ég var í markþjálfunarnámi. Hvað ef þú ættir sex mánuði eftir ólifaða?
Kennarinn útskýrði að tilgangurinn með spurningunni, væri að fá fólk til að setja lífið í nýtt samhengi og forgangsraða útfrá gildunum sínum. Því sem skiptir það virkilega miklu máli, raunverulega og að vel hugsuðu máli.
Mér fannst þetta fáranleg spurning. Hvernig í ósköpunum átti ég að geta sett mig í þau spor að ímynda mér að ég ætti aðeins sex mánuði eftir ólifaða? Auk þess þótti mér frekja og ósvífni að spyrja fólk að þessu.
En sannleikurinn er sá að ofsafengin viðbrögð mín við spurningunni, fengu mig til að hugsa. Spurningin hafði þá tilætluð áhrif þegar allt kom til alls. Síðan eru liðin mörg ár og þeir sem hafa verið hjá mér í einkaþjálfun vita að ég nota þessa spurningu stundum. Hún er nefnilega mjög gagnleg því hún er svo sannarlega róttæk og svörin við henni eru því gjarnan eftir því. Líkleg til þess að hjálpa manni að breyta um kúrs eða minnsta kosti átta sig á að sumir hlutir skipta engu máli í stóra samhenginu. Aðrir hlutir skipta hins vegar mjög miklu máli og kúnstin er að átta sig á muninum á þessu tvennu.
Upp úr hjólförunum
Við getum líka spurt okkur þessarar spurningar þegar við viljum losa okkur við ávana eða temja okkur góðar venjur.
Hverju myndir þú breyta ef þú ættir aðeins sex mánuði eftir ólifaða?
Hvað ef þetta væri lífstíll?
Margir vita að fólk sem hefur horfst í augu við dauðann er líklegt til að breyta lífi sínu í kjölfarið. Þetta fólk lifir lífi sínu eins og tíminn sé af skornum skammti. Sannleikurinn er auðvitað sá að enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Þetta vitum við en kjósum oftast að líta framhjá því, nema við séum tilneydd að horfast í augu við það. Kannski er dagurinn í dag svoleiðis dagur. Dagur þar sem við horfumst í augu við breyskleika okkar og ákveðum að breyta því sem við getum breytt – á meðan tími gefst.