Ein þeirra bóka sem höfðu hvað mest áhrif á mig á unglingsárunum var Ástin á tímum kólerunnar, eftir kólumbíska nóbelshöfundinn Gabriel Garcia Marquez. Mér er sérstaklega minnistætt að hafa reynt að setja mig í spor sögupersónanna en hugsað með mér að það væri óraunsætt þar sem faraldur af þessu tagi myndi aldrei geysa að nýju. Eins og alkunna er, hafði ég rangt fyrir mér.
Tídægra
Önnur sögufræg bók hafði hliðstæð áhrif á mig en það er bókin Tídægra, eða Decamerone eins og hún heitir á frummálinu ítölsku, eftir Giovanni Boccaccio. Sú kom út um miðbik fjórtándu aldar og er merkileg fyrir margra hluta sakir.
Bókin hefur að geyma tvær víddir ef svo má segja. Annars vegar er rammi hennar sá að hópur ungmenna frá Flórens lokar sig af á sveitasetri í Toskanahéraði til að flýja pláguna miklu sem geysar allt um kring. Eins og flestir þekkja nú af eigin raun á tímum kórónaveirunnar, finna ungmennin, sem eru tíu talsins, sér ýmislegt til dægrastyttingar.
Hvert þeirra segir eina sögu á dag uns sögurnar verða hundrað talsins og tvær vikur eru liðnar (þau taka sér frí um helgar). Frásagnir þeirra fléttast inn í sögusviðið og sögurnar eru margskonar endurómun ólíkra menningarheima.
Algleymi í stað raunveruleikatengingar
Ástæðan fyrir því að ég nefni fyrrgreindar bækur er sú að mörg okkar þekkja það að vilja gjarnan hverfa á vit bókmenntanna, hámáhorfs eða samfélagsmiðlanotkunar hverskonar. Þessi tilhneiging hefur fengið byr undir báða vængi nú á tímum kóvsins og það er freistandi að upplifa algleymi frásagnarlistarinnar í stað þess að horfast í augu við óvissu samtímans.
Fyrir utan þær áskoranir sem hljótast af því að takast á við veikindi af völdum veirunnar eða því að reyna að koma í veg fyrir að smit, glímir fólk nú við ýmislegt sem það hefur ekki upplifað áður og bjóst aldrei við að þurfa að upplifa.
En hvað getum við lært á þessu öllu saman? Fyrir utan að verða meistari í sóttvörnum og víðlesinn í veirufræðum eins og mörg okkar eru nú þegar orðin, geta falist ýmis tækifæri í þeim breytingum sem við nú upplifum.
Temdu þér nýja nálgun í kóvinu
Undirrituð er í hópi þeirra sem hefur unnið heima eða á farandskrifstofu af einhverju tagi um árabil. Eins og gefur að skilja hefur þetta fyrirkomulag haft bæði kosti og galla í för með sér.
Meðal þess sem ég hef lært er að stjórna tíma mínum, skipuleggja mig og einbeita mér að þeim verkefnum sem liggja fyrir hverju sinni. Auk þess er ég orðin nokkuð slungin í að bera kennsl á tilhneigingu mína til að fara að gera eitthvað allt annað en að vinna þegar verkefnin verða flókin eða mér fer að leiðast.
Margir kannast við frestunaráráttu og innra viðnám af ýmsu tagi. Athuganir hafa leitt í ljós að heilinn leitar ýmissa leiða til að koma í veg fyrir að við náum árangri. En þegar við leyfum okkur að bera kennsl á viðnámið í stað þess að bregðast við því með því að fara að gera eitthvað annað, getum við sannarlega náð árangri.
Góð leið er að ljúka hverjum vinnudegi á því að skrifa niður skýr markmið fyrir daginn á eftir. Prófaðu svo að deila deginum upp í minni einingar og taktu þér frímínútur inn á milli. Ég mæli með að prófa hina svokölluðu pomodoro aðferð, að minnsta kosti hluta úr degi. Aðferðin gengur út á að vinna í 25 mínútur og taka sér svo fimm mínútna hlé á milli. Í hléinu er tilvalið að dansa við uppáhaldstónlistina þína eða fá þér bolla af góðu kaffi eða tei. Með þessarri aðferð geturðu komið ótrúlega miklu í verk á stuttum tíma auk þess sem vinnudagurinn verður skemmtilegri.