c

Pistlar:

27. febrúar 2019 kl. 10:12

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Alltaf óreiða í barnaherberginu?

Barnaherbergið er allt í drasli. Leikföng út um allt og börnin vilja helst leika sér frammi. Kannastu við þetta?

Ég hef svo oft lent í þessu og hef gripið til fjölbreyttra aðferða þegar kemur að því að halda barnaherberginu í horfi.

  • Ég hef geymt leikföng á háaloftinu og skipt þeim reglulega út fyrir önnur sem eru inni í herbergi.
  • Ég hef keypt nýjar geymsluhirslur fyrir herbergið.
  • Ég hef hótað að gefa hlutina ef það er ekki gengið frá þeim o.sfrv.

 

En ekkert af þessu virkaði

Stundum voru herbergisgólfin svo þakin leikföngum að ekki var hægt að leika sér í herberginu og þá færðu börnin fært sig fram af því að þar var meira pláss.

En þetta gjörbreyttist þegar ég hætti að skipuleggja herbergið þeirra og fór að hjálpa þeim að einfalda það. Þvílík breyting sem átti sér stað. Eftir því sem leikföngin urðu færri í herberginu, því meira léku börnin sér.

Það var ekki fyrr en ég hætti að reyna að finna hið fullkomna skipulag og hætti að leita að hinni fullkomnu geymsluhirslu að barnaherbergið varð að herbergi en ekki geymslu fyrir leikföng.

 

Það var mér mjög minnistætt þegar ég hélt fyrsta barnaafmælið eftir að við höfðum komið herbergi drengjanna í það horf sem það er núna, þ.e með minna af leikföngum. Þetta var leikskólaafmæli fyrir son minn sem var þá fimm ára. Allir drengirnir á deildinni komu í afmælið og voru í tvo klukkutíma að leik og snæðingi. Drengirnir höfðu verið í eltingaleik, feluleik, lego og haft ótrúlega skemmtilegan tíma saman og viti menn, það var ekki allt í drasli eftir afmælisveisluna. Þar sem ekki var of mikið magn af leikföngum fékk ímyndunarafl og sköpunargáfa að blómstra sem var dásamlegt. 

 

Til þess að börn leiki sér betur er svarið oftast ekki að bæta við leikföngum ólíkt því sem margir halda heldur einmitt að hafa færri leikföng. Í kjölfarið að því verður mun auðveldara fyrir börnin að ganga sjálf frá og halda herberginu sínu snyrtilegu.

 

Ég mæli með því að takmarka magn leikfanga við ákveðið geymslurými. Ég nota t.d plastkassa á hjólum sem hægt er að rúlla undir rúm sem mælikvarða þessa stundina. Um leið og leikföng eru farin að flæða úr þessum kössum þá er komin tími til að minnka magn leikfanga í herberginu. Í þessum kössum er lego, búningar og annað sem þeir leika sér með.

Börnin okkar þurfa kannski bara aðeins minna af hlutum og meira af gæðastundum með okkur foreldrum, er það ekki?

 

Ég hvet þig til að taka skref í átt að einfaldara herbergi fyrir börnin þín. Endilega fylgstu síðan með á heimasíðunni minni og á Facebook síðu Einfaldara lífs. Þar getur þú t.d nálgast stutta myndbandskennslu um það hvernig hægt er að einfalda svefnherbergið. 

 

 

Kærleikskveðja,

Gunna Stella









Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira