c

Pistlar:

20. mars 2019 kl. 13:22

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Ekki gera þessi mistök þegar þú ferðast með börn!

Það er ótrúlega gaman að ferðast. Við hjónin elskum að ferðast með börnin okkar. Nú erum við komin til Ástralíu sem þýðir að dóttir okkar hefur komið til 6 heimsálfa og synir okkar til 5. Við lítum á ferðalög sem góða fjárfestingu. Góðan tíma sem fer í minningabankann. En þó svo við höfum mjög gaman af því að ferðast með fjölskylduna þá í sannleika sagt er það ekki alltaf dans á rósum. Það eru kostir og gallar að vera stór fjölskylda á ferðalagi en ég myndi alltaf meta kostina fleiri en gallana.

Í fyrradag áttum við heilan dag í Singapore þar sem við millilentum á leið okkar til Ástralíu. Tímamismunurinn var mikill og við sváfum misvel nóttina áður en við skoðuðum Singapore. Við gerðum mistök sem ég geri ekki oft.  Við gleymdum að taka með okkur nesti. Það varð eftir í farangrinum okkar sem hótelið geymdi fyrir okkur þangað til við þurftum að fara á flugvöllinn. Það leið því nokkur tími áður en við gátum gefið fjölskyldunni morgunmat. Börnin eru flest öll eins og mamma sín. Gleðistuðullinn minnkar eftir því sem hún verður svangari. Þegar leið á morguninn höfðum við gengið um og ferðast í "hopp on, hopp off" strætó (mjög skemmtilegt) og séð margt áhugavert. Börnin fóru eitt af öðru að tala um svengd og áður en gleðistuðullinn minnkaði mikið drifum við okkur á næsta loftkælda kaffihús og fengum Croissant. Það var magnað að sjá hvað allir urðu glaðari eftir smá kælingu og mat. Við héldum svo áfram að skoða þessa ótrúlegu borg. Áður en langt um leið var þó farið að tala um svengd á ný. Við fórum því og fengum okkur frábæran mat í indverska hverfinu í Singapore. Ég er svo hrifin af indverskum mat. Hann er uppáhalds ásamt reyndar allskonar öðrum mat líka. 

architecture-attraction-bay-1842332

Eftir á að hyggja var þó í raun mjög gott að lenda í því að gleyma orkustykkjum og öðru nesti þennan fyrsta dag, við lærðum af því. Ég passa nefnilega yfirleitt vel upp á að vera með ýmislegt til að narta í sem gefur orku á svona ferðalögum. Nú er tæplega mánaðar ferðalag framundan og er markmiðið að passa að vera alltaf með eitthvað til að grípa í ef börnin (og ég) verða svöng, og halda þannig gleðistuðlinum eins háum og hægt er.

... muna nestið!

Nesti = Glöð börn 

Þu getur fylst með ferðalaginu okkar hér!  

 

Kveðja frá "Down under". 

 

Gunna Stella 

Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira