Það er svo auðvelt að vera búin að undirbúa ferðalagið sem maður er á svo vel að maður fer algjörlega eftir GPS tækinu, gleymir að njóta augnabliksins og vera opin fyrir nýjum ævintýrum. Nú erum við fjölskyldan (6 manns) á mánaðar ferðlagi. Þessa dagana erum við stödd í Ástralíu. Við erum búin að gera ótrúlega margt skemmtilegt., Þar á meðal að fara í brúðkaup vina okkar, gefa kengúrum að borða og klappa kóalabirni. Þessa dagana erum við að keyra niður The Great Ocean road í átt að Melbourne. Þessi leið er ótrúlega fallega. Þegar við komum til landsins vorum við búin að sjá fyrir okkur að gista á ákveðnum stöðum en ákváðum svo með stuttum fyrirvara að fara fyrr frá Adelaide og vera lengur á leiðinni niður The Great Ocean Road en við áætluðum í upphafi. Við höfum því pantað gistingar síðustu þrjár nætur annaðhvort samdægurs eða kvöldið áður. Það kom skemmtilega á óvart að gistingin á þessari leið er ódýrari eftir því sem þú pantar hana með styttri fyrirvara. Við erum því búin að fá mun hagstæðari gistingar með þessari aðferð. Á þessari vegferð okkar erum við búin að lenda í rigningu, brjáluðu roki, sól og logni. “Feels like home”.
Í gær keyrðum við síðasta hluta leiðarinnar án þess að hafa GPS tæki. Við ákváðum bara að fylgja strandleið og stoppa þar sem okkur langaði að stoppa. Þvílík ævintýri, skilti sem vöruðu við snákum. Villtar kengúrur að bíta gras með hestum. Stígur sem leiddi okkur að fallegum klettum og niður að strönd sem var svo skemmtileg og falleg að drengirnir vildu ekki hætta að leika sér. Ég elska að ferðast svona. Vera opin fyrir ævintýrum og óvæntum uppákomum. Dagurinn endaði svo á frábæru hóteli þar sem við fórum í Tennis, Boccia og sund. Þetta hótel bókuðum við með nokkurra klukkutíma fyrirvara. Það er greinilega gott að ferðast með stóra fjölskyldu niður The Great Ocean Road þegar farið er að hausta í Ástralíu. Verðið á gistingu er allavega mun lægra en þegar við byrjuðum að skoða það fyrir nokkrum mánuðum. Það er nauðsynlegt að vera skipulagður, vera búin að undirbúa ýmislegt en það þarf ekki að vera búið að skrifa niður allt sem á að skoða. Það er gott að vera opin og leyfa ævintýrunum að gerast.
... þú getur fylgst með ferðalaginu okkar hér!
Sólarkveðja,
Gunna Stella