c

Pistlar:

3. apríl 2019 kl. 2:21

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Menningarsjokk á Balí!

Fyrir tveimur dögum síðan lentum við fjölskyldan á Balí. Ég er búin að hlakka til að koma til Balí lengi en vissi ekki við hverju átti að búast. Fyrsta upplifun mín af Balí var mjög góð. Flugvöllurinn var snyrtilegur og fólkið var vingjarnlegt. Þegar við gengum út af flugvellinum fann ég sömu lykt og á Indlandi og í Afríku. Blanda af hita, raka og mengun.  Börnin urðu mjög hissa þegar þau settust upp í beltislausan bíl og urðu enn meira hissa þegar þau sáu fólk keyra um á mótorhjólum með börn og það hjálmlaus. Þeim fannst þetta þó mjög áhugavert og spennandi.

 

Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir var áliðið og við ákváðum að leita að veitingastað til þess að fá okkur kvöldmat. Við gengum eftir götunni og þurfum að fara mjög varlega í myrkrinu. Við gengum í vegkantinum. Mótorhjól á ógnarhraða allt í kring. Ég, Aron og dóttir okkar Lýdía skiptum strákunum á milli okkar og gengum í einni línu í vegkantinum. Ég veit ekki hversu oft ég kallaði.

 

 

Passið ykkur!

Mótorhjól!

Farið innar!

 

Þessi stutta ferð að veitingahúsinu gerði það að verkum að ég hugsaði. Hvert er ég komin? Hvað erum við að spá? Eigum við fótum okkar fjör að launa í hvert skipti sem við stígum fæti úr húsi hér á Balí? Neikvæðar hugsanir voru eins og ský í huga mér sem ætluðu að skyggja á sólina. Í ofanálag var okkur mjög heitt og við vorum sveitt og þreytt. Við höfðum lítið borðað þennan dag þar sem við vorum búin að ferðast lengi frá Sydney. Ég áttaði mig á að þetta var sama tilfinning og ég hafði upplifað fyrsta daginn minn í Ougadougou í Burkina Faso og fyrsta daginn minn í Mumbai á Indlandi. Þetta var menningarsjokk á lágu stigi. Ég ákvað að anda rólega. Hertaka hugsanir mínar og sagði við sjálfa mig. Gunna Stella, þú veist að þetta verður betra á morgun. Núna ertu þreytt, svöng og þér er heitt. Þetta verður æðislegt!

Viti menn, ég vaknaði úthvíld. Umhverfið var fallegt og það kom í ljós að gatan sem við höfðum gengið var ein mesta umferðargatan í hverfinu. Á degi tvö kom í ljós að Balí er Paradísareyja. Það er svo yndislegt og ljúft að vera hér. 

 

Menningarsjokk er tilfinning er sem ekki óeðlileg þegar komið er i menningu sem ólík því sem maður á að venjast.  Menningarsjokk geta verið mis mikil en það er hluti af ferðalögum og í raun stæða þess að við ferðumst. Ég er allavega oft að sækjast eftir einhverju sem ég finn ekki heima á Íslandi. Einhverju nýju og einhverju spennandi. Það góða við menningarsjokk er að í flestum tilfellum kemst maður yfir það á nokkrum dögum.

Þú getur fylst með ferðalaginu okkar á Instagram!

Sólarkveðja, 

 

Gunna Stella 

Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira