c

Pistlar:

30. apríl 2019 kl. 13:09

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Er BRJÁLAÐ að gera?

Ég sá auglýsingu frá Virk starfsendurhæfingarsjóði um daginn þar sem skotið er hressilega á okkur íslendinga og þessa frægu setningu. Brjálað að gera! Virk fór af stað með verkefni með yfirskriftinni “Brjálað að gera” til þess að vekja athygli á því hvað fólk er oft undir miklu álagi í einkalífinu og á vinnustaðnum.

 

Í gegnum tíðina hefur það þótt vera “flott” að segjast hafa brjálað að gera.

Af hverju þarf að vera brjálað að gera til þess að við upplifum okkur einhvers virði?

 

 

Allt of margir einstaklingar hafa lent í kulnun, einfaldlega af því að það er brjálað að gera. Ætlast er til að fólk hafi tíma til að sinna vinnu, fjölskyldu, áhugamálum, líkamsræktinni og öðru sem kemur óvænt upp á án þess að kikna. En hjá flestum okkar gengur það ekki til lengri tíma. Á einhverjum tímapunkti gefur eitthvað sig og oftar en ekki er það líkaminn, andleg heilsa eða bæði.

 

Í starfi mínu legg ég mikla áherslu á að hjálpa einstaklingum að finna jafnvægi í lífi sínu. Það er ekki nóg að borða næringarríkan og hollan mat og mæta í ræktina nokkrum sinnum í viku til þess að upplifa jafnvægi. Til þess að ná jafnvægi þá er mikilvægt að þú hafir einnig tilgang, að þú eigir uppbyggjandi og góð sambönd í lífi þínu, að þú sinnir andlegri heilsu og þú sinnir áhugamálum sem þú elskar.

 

Hvernig væri að við tækjum höndum saman og hættum að gera setningunni “það er svo brjálað að gera” hátt undir höfði. Hvernig væri að við myndum einfalda lífið. Hvernig væri að við myndum gefa okkur tíma daglega til þess að gera eitthvað sem nærir okkur andlega og líkamlega. Hvernig væri að við myndum rækta sambönd sem hafa jákvæð áhrif á okkur. Hvernig væri að við einfölduðum dagskrána og lærðum að segja NEI!

 

Einfaldara líf fyrir mig lítur kannski ekki út eins og einfaldara líf fyrir þig. Einfaldara líf fyrir mig er það geta sinnt því sem hjarta mitt brennur fyrir. Einfaldara líf er það að geta sest niður og lesið bók og haft hugann við bókina. Einfaldara líf er það að njóta dagsins og vera glöð og ánægð í því starfi sem ég sinni. Einfaldara líf er það þegar að geta notið þess að sinna fjölskyldu minni og börnum án þess að bíða bara eftir að dagurinn líði og allir fari að sofa.

 

Hvernig er einfaldara líf fyrir þig?




Njóttu dagsins! 

 

Gunna Stella

Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari

 

Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira