c

Pistlar:

28. ágúst 2019 kl. 17:05

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Botnlangakastið leiddi til Tenerife ferðar

Í byrjun október í fyrra fékk maðurinn minn heiftarlega mikinn magaverk. Hann var sárkvalinn,lá á bráðamóttökunni heila nótt en var svo sendur í aðgerð þegar líða tók á næsta dag. 

Þegar hann var komin inn á aðgerðarstofuna áttaði ég mig á því að ég var óróleg inn í mér. Þegar ég er óróleg og hrædd þá fer ég oft að gera eitthvað verklegt, framkvæma, laga til eða eitthvað sem krefst þess að ég geti sett fókusinn minn annað. En þarna var það ekki hægt. Ekki gat ég farið að taka til á sjúkrahúsinu.

Í nokkrar vikur fyrir þetta var mig búið að dreyma um að skipuleggja ferð fyrir konur til Tenerife þar sem ég myndi blanda saman uppbyggjandi kennslu, sjálfrækt, hollum mat og hreyfingu. Ég hafði samt ákveðna hugmynd um húsnæði sem ég vildi vera með hópinn í og var á þessum tímapunkti ekki enn búin að finna rétta húsið. Ég var sem betur fer með tölvuna mína og fór að skoða hús á Tenerife og gat þannig dreift huganum. Maðurinn minn hafði hvatt mig lengi til að láta þetta verða að veruleika og á meðan hann var í aðgerðinni fann ég draumahúsið. Húsið sem ég var búin að leita lengi að. Það sem seldi mér hugmyndina að því að þetta væri rétta húsið var ekki fallega útsýnið, fallega sundlaugin, fallegu herbergin heldur sófinn sem var í stofunni. Þarna sá ég fyrir mér að ég gæti verið með hóp kvenna, sem myndu tengjast, tala saman og opna hjarta sitt og vinna að því að verða besta útgáfan af sjálfri sér. Ég pantaði því húsið og þegar maðurinn kom úr aðgerðinni var ég búin að skipuleggja heila Tenerife ferð. Hann var  mjög ánægður fyrir mína hönd en auðvitað líka að vera laus við botnlangann og verkinn sem honum fylgdi.

Í þessari ferð sá ég draum minn rætast. Stundum er sagt að konur séu konum verstar og það er mikið til í því en á þessum stað og í þessum hópi voru konur, konum bestar. Þær hvöttu hvor aðra áfram og stóðu með hvor annarri.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa tekið fyrsta skrefið í átt að því að láta þennan draum minn rætast. Með falli WOW air í vor vissi ég ekki hvort ég gæti látið verða af því að skipuleggja aðra ferð. En hjarta mitt sagði jú, það eru konur þarna úti sem þurfa að komast í svona ferð. Heilsa - Hreyfing - Hugarró 2020 verður á Tenerife 25. febrúar - 3. mars. Allar nánari upplýsingar má finna hér!  

 

Það er svo mikilvægt að horfa fram á við og hafa sýn fyrir lífið. Í bókinni Chazown sem ég las fyrir nokkrum árum segir “allir hafa tilhneigingu til að enda einhversstaðar en það eru fáir sem enda einhversstaðar viljandi”. Ég er svo sammála þessari fullyrðingu og ég tók þennan boðskap til mín þegar ég heyrði hann fyrst.

Ef ég á mér draum þá er svo mikilvægt að ég taki skref í átt að því að láta hann rætast. Eitt af þeim verkefnum sem ég legg reglulega fyrir markþega mína og konur sem hafa sótt námskeið hjá mér er að skrifa niður drauma sína. Sumir draumar eru einfaldir og aðrir eru stórir. Ef við vitum ekki hverjir draumar okkar eru þá er ólíklegt að þeir rætist. Við þurfum ekki að lenda í stórkostlegu áfalli, vera komin á eftirlaunaaldur eða fá lífshættulegan sjúkdóm til þess að gera okkur grein fyrir því hverjir draumar okkar eru. Við getum látið okkur dreyma strax í dag

Ég mæli með því að skrifa niður hverjir draumar ykkar eru. Þú getur t.d skrifað það í dagbók, á rafrænt skjal eða í forrit í snjallsímanum þínum. Mundu bara að hafa skjalið einhversstaðar þar sem þú sérð það reglulega.  

 

Kærleikskveðja,

Gunna Stella 




Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira