c

Pistlar:

4. desember 2019 kl. 9:57

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Ertu búin að öllu?

Þegar kemur að aðventunni þá upplifa margir streitu. Ég hef oft ákveðið fyrir aðventuna að ég ætli að eiga rólega, ljúfa og yndislega aðventu. Ég hef ákveðið að ég ætli ekki missa mig í þrifum, bakstri, jólagjafainnkaupum og þess háttar. Ég fer kannski sæl og glöð inn í aðventuna en svo byrjar áreitið. Fólk spyr ,,Gunna, ertu búin að öllu?” Ha, öllu? Hvað meinarðu? Jú, öllu auðvitað, t.d. bakstrinum, þrifunum, innkaupunum! Úff, ég veit ekki með ykkur en ég upplifi stundum að svona spurningar geti valdið mér streitu og óþarfa áhyggjum, þó ég viti spurt sé af kærleika og umhyggju. 

 

Hvað er allt? Þetta allt er hægt að skilgreina á svo margvíslegan hátt. Hjá mér er allt þegar ég er búin að búa til jóladagatal fyrir fjölskylduna sem eykur samverustundir, gæðastundir og góðar minningar. Hjá mér er allt þegar ég hef keypt jólagjafir á hagstæðan hátt og bakað jafnt og þétt yfir aðventuna og leyft börnunum mínum og manninum mínum að gúffa kökurnar í sig á ógnarhraða. Hjá mér er allt þegar ég hef átt tíma til að setjast niður í rólegheitunum og drekka kaffi með góðum vinum. Hjá mér er allt þegar ég hef getað sest niður og lesið góða bók. Hjá mér er allt þegar ég hef ákveðið hvað á að vera í matinn á aðfangadag og passað upp á að eiga eitthvað hollt og næringarríkt til að börnin og við hin fullorðnu getum nartað í þess á milli. Hjá mér er allt þegar ég hef horft á margar misgóðar jólamyndir með fólkinu mínu. Hjá mér er allt þegar ég næ að njóta líðandi stundar. 

 

Hvert er þitt ALLT? 

Ekki láta aðra skilgreina fyrir þig hvað þitt “allt” er. Þú þarft að vita hvað það er sem þú vil gera á aðventunni og þú þarft að vita hvað það er sem veitir þér og þinni fjölskyldu gleði og ánægju. 

Mín hvatning til þín í dag er að þú skoðið það vel og vandlega hvernig þú getur notið aðventunnar og líðandi stundar og ég hvet þig til þess að spyrja einungis sjálfan þig hvort þú sér búin að öllu. Því að þitt allt er kannski allt annað en mitt allt. 

Ef þú vilt fá nokkur góð ráð varðandi það hvernig hægt er að einfalda aðventuna þá getur þú nálgast þau hér

 

Eigðu góða aðventu, 

Gunna Stella 

 





Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira