c

Pistlar:

3. júní 2020 kl. 23:37

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Fimm atriði sem gefa þér orku og aukin drifkraft

Þegar ég var 3 ára gömul skildu foreldrar mínir. Ég man eftir því sem barn að “öfunda” jafnaldra mína sem áttu foreldra sem voru ekki skilin. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að það var ástæða fyrir því að þau skildu og það var ástæða fyrir því að þau voru ekki lengur saman. Í barnshuganum var sameinað hjónaband foreldra minna einhverskonar draumur sem ég þráði að yrði að veruleika. Frá barnæsku er okkur kennt að öfund sé ekki af hinu góða.

En öfund getur á vissan hátt hjálpað okkur að sjá hvert við viljum stefna með líf okkar og hvað við viljum gera. Hún getur vísað okkur í þá átt sem við viljum fara. 

 

Gagnvart hvaða fólki finnur

þú til öfundar? 

 

Fólk sem þorir að tala fyrir framan aðra

Þegar ég var unglingur öfundaði ég einstaklinga sem þorðu að tala á sviði frammi fyrir öðru fólki. Ég man enn í dag eftir tilfinningunni sem ég upplifði þegar ég átti að halda ræðu frammi fyrir bekknum mínum í fyrsta skipti sem unglingur. Ég held ég hafi rétt náð að stama nokkrum setningum upp úr mér. En ég vissi að þetta var eitthvað sem ég vildi geta gert. Ég öfundaði þá sem áttu auðvelt með þetta en í raun og veru öfundaði ég ekki einstaklinginn. Ég öfundaði fólk sem stjórnaðist ekki af óttanum við álit annarra.  Ég hefði aldrei trúað því þá að ég ætti eftir að starfa sem kennari og halda marga fyrirlestra og námskeið. Ég var ekki tilbúin á þeirri stundu að takast á við þennan ótta. Það kom seinna meir. En þetta var vegvísir. 

 

Börn sem alast upp með báða foreldra á heimilinu 

Frá því að ég var barn átti ég mér þann draum um að gifta mig, eignast börn og fá tækifæri til þess að ala börnin mín upp með manninum mínum. Ég þráði að börnin mín fengju að upplifa það að vera með mömmu og pabba á heimilinu. Það er ekki sjálfgefið. Það er margt sem getur komið upp upp á. Hjónabandi þarf að sinna og það þurfa báðir aðilar að leggja sig fram. Mörgum þótti það sérstakt að við hjónin ákváðum að gifta okkur tæplega 19. ára gömul. Við vorum búin að vera saman í tvo ár og vorum handviss um það þetta væri það sem við vildum. Við vorum tilbúin þó við  værum ung. Um þessar mundir erum við búin að vera gift í 20 ár. Ég er þakklát fyrir árin, þakklát fyrir hæðirnar, þakklát fyrir dalina, þakklát fyrir sólina, þakklát fyrir rigninguna. Allt sem við höfum gengið í gegnum saman hefur gert okkur sterkari.  

 

Það að spyrja sjálfan sig hver sé fyrirmynd eða hvað maður öfundar í fari einhvers getur leitt okkur okkur í þá átt að við áttum okkur á því að við viljum breyta einhverju í lífi okkar.



Í sumum tilfellum er hægt að upplifa öfund gagnvart hlutum sem við getum ekki breytt. Þá er mikilvægt að vinna að því að sætta sig við það sem fæst ekki breytt. 

 

Þess vegna er gott að spyrja sig líka “Hvers vegna við upplifum öfund?” og “Hvað þessi einstaklingar sem við “öfundum” eiga sameiginlegt? 

 

Þegar þú áttar þig á því hvað það er í fari einhvers einstaklings sem þú “öfundar” þá getur þú markvisst unnið að því að spyrja þig hvort þetta sé eitthvað sem þú vilt í lífi þínu. Ef svarið er já erum að gera að fara að taka skref í þá átt. 



Eftirtalin atriði geta hjálpað þér að hafa þá orku sem þú þarft á að halda til að breyta einhverju í lífi þínu. Þau geta hjálpað þér þegar þú þarft að upplifa kjarkinn til að taka ákvarðanir um breytingar. Ég finn mun þegar ég sinni þessum atriðum. Ég hef meiri orku, meiri framkvæmdarkraft og meira hugrekki til að taka skref í átta að draumum mínum. 

 

Þetta er á ensku kallað Five to thrive og kemur upphaflega frá einum af mínum uppáhalds rithöfundum, Rachel Hollis. 

1. Vaknaðu klukkustund fyrr en vanalega og notaðu þennan klukkutíma fyrir þig. 

2. Hreyfðu þig í 30 mínútur

3. Drekktu helming líkamsþyngdar þinnar í (ounces) á hverjum degi 

* Hér fyrir neðan eru dæmi (námundað). 

 

  • 60 kg = 2 lítrar
  • 65 kg = 2,1 lítri 
  • 70 kg = 2,3 lítrar
  • 75 kg = 2,4 lítrar
  • 80 kg =2,6 lítrar 

 

O.s.frv.

 

4. Hætta að borða/drekka einhverja matar/drykkjartegund í 30 daga, til þess að þú áttir þig á því að þú getur það!  

 

5. Skrifaðu niður 5 hluti sem þú ert þakklát/ur fyrir hvern dag. 

Ég hvet þig til að prófa þetta og vittu til, orkan og drifkrafturinn mun aukast! 

XOXO

Gunna Stella 













Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira