Margir kvíða mánudögum. Finnast þeir upphaf að einhverju leiðinlegu og erfiðu. Ég held það sé vegna þess að þeir hafa ekki gaman af vinnunni sinni. Lykilatriðið er auðvitað viðhorfið til vinnunnar og ef það er jákvætt er hægt að gera alla hluti skemmtilega. Mér finnast mánudagar alltaf spennandi, því ég lít á þá sem upphaf að nýju ferli. Framundan eru fimm dagar þar sem hugmyndaflug, sköpunarkraftur og jákvætt hugarfar geta komið saman og galdrað fram ótrúlega útkomu sé vel á haldið.
Yfirleitt nota ég sunnudagskvöld eða mánudagsmorgna til að skoða hvaða skuldbindingar ég er með í vikunni framundan, hvenær ég þarf að mæta á fundi og hvar ég á lausan tíma til annarra verkefna. Ég hef tamið mér að raða helst fundum á einn eða tvo daga vikunnar, svo ég fari þá á fleiri en einn stað í einu þegar ég er á annað borð lögð af stað og spari þar með akstur og dragi úr þeirri mengun sem honum fylgir. Þá á ég líka fleiri samfellda daga til að sinna stærri verkefnum. Eins geri ég tilraun til að skipuleggja innkaup vikunnar, þannig að ég fari helst ekki oftar í búð en tvisvar hverja viku. Ég á auðvelt með að tengja það fundaferðadögunum ef ég skipulegg mig vel.
Ég legg mig líka fram um að hugsa um það hvernig ég get gert vikuna bæði grænni og heilsusamlegri. Nú þegar uppskerutími grænmetis er í hámarki set ég auðvitað fókusinn á að borða sem mest af grænu grænmeti, helst hráu eða þá gufusoðnu. Ég held að fleiri séu með fókus á það sama því ég hef rekið mig á að til dæmis spergilkál selst upp nánast um leið og það kemur í kæla heilsuvörubúðanna - enda fátt betra fyrir líkamann en orkan úr því.
Hver dagur kemur bara einu sinni. Því er mikilvægt að njóta hans til fullnustu, hvort sem það er til að skapa eitthvað skemmtilegt, hitta vini og kunningja, leysa af hendi verkefni sem gæti verið leiðinlegt en gera má skemmtilegt eða bara hvíla sig. Leggðu þig fram um að gera alla daga grænni og umhverfisvænni, en umfram allt jákvæðari og skemmtilegri. Lífið er of stutt til að láta sér leiðast.