c

Pistlar:

2. apríl 2012 kl. 23:18

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Græn lán til góðra kaupa

graen_lan_1144860.jpgMeðan við horfum á verðið á eldsneyti hækka næstum því vikulega og rekstrarkostnað bílsins þar með, er ekki að furða þótt fólk líti í kringum sig eftir sparneytnari bílum. Bílaframleiðendur hafa svo sannarlega brugðist hratt við síðustu ár með því að þróa sífellt sparneytnari bíla. Það sem fæstir bílar geta kallast umhverfisvænir, því þeir menga allir eitthvað, hafa þeir sparneytnustu og þeir sem menga minnst verið kallaðir umhverfishæfari en aðrir bílar. Umhverfishæfni bíla er mæld út frá því hversu miklu af Co2 þeir losa á hvern ekinn kílómetra og þeir bílar teljast umhverfishæfir sem losa einungis  0 til 120 g af Co2 á hvern ekinn kílómetra.

En það eru fleiri en bílaframleiðendur sem hafa brugðist við breyttum aðstæðum, hækkandi eldsneytisverði og aukinni áherslu á umhverfisvernd. ERGO, sem er fjármögnunarþjónusta Íslandsbanka hefur allt frá stofnun boðið upp á sérkjör á bílalánum til kaupa á umhverfishæfum bílum, meðal annars með því að fella niður lántökukostnað á öllum bílum, nýjum sem gömlum. En þeir bjóða ekki bara upp á sérkjör á lánum, heldur einnig fræðslu og ráðgjöf, svo viðskiptavinurinn geti tekið upplýstari ákvörðun við kaup, hvort sem er á bílum eða atvinnutækjum, því stefna fyrirtækisins er að styðja við fjölgun umhverfishæfari bíla á Íslandi.

Viðskiptavinurinn er í raun hvattur til að skoða þær reiknivélar frá Orkusetri, sem finna má á vefsíðu ERGO. Þar geta þeir séð svart á hvítu hvernig val á sparneytnum bíl getur sparað háar fjárhæðir ekki bara við kaup á bíl, heldur einnig þegar reiknaður er út rekstrarkostnaður hans. Með því að nota reiknivélina er hægt að sjá hversu miklu bíllinn eyðir í bensín og hversu mikið hann mengar. Einnig er hægt að sjá samanburð á eyðslu, útblæstri og bifreiðagjöldum bíltegunda auk þess sem bíllinn getur fengið eyðslueinkunn eftir því hvað hann eyðir miklu eldsneyti. Því er auðvelt að sjá hvernig rekstrarkostnaðurinn breytist eftir því hvaða bíltegund er valin.

 Innflutningur á bílum dróst verulega saman á árinu 2008 og hefur því aldur bílaflotans hækkað þrátt fyrir aukningu í innflutningi á þessu ári. Um 30% bílaflotans er 6 til 10 ára gamall. Lánamöguleikar á eldri bílum hafa verið takmarkaðir og því oft erfitt fyrir viðskiptavini að festa kaup á eldri bíl. ERGO hefur því boðið upp á allt að 60% fjármögnun á allt að 10 ára gömlum bílum. Hámarksfjármögnun er 2,5 milljónir króna og lágmarksverðmæti bifreiðar er 800 þúsund krónur.

Stjórnvöld hafa einnig gert miklar breytingar á gildandi lögum um vörugjöld. Í stað þess að miða við rúmtak véla var í árslok 2010 byrjað að miða við mengun í útblæstri.  Einnig er heimild í þessum lögum til lækkunar á vörugjöldum á bifreiðum sem knúnar eru af metani. þessar breytingar hafa haft áhrif á það hvaða nýja bíla einstaklingar og fyrirtæki eru að kaupa.

Heimildir: www.ergo.is
 http://vimeo.com/38884904
www.graennapril.i.s

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira