Breska Cosmopolitan birti nýlega skemmtilega grein um súkkulaði og tilgreindi 11 ástæður fyrir því að við ættum að borða DÖKKT súkkulaði. Rétt er þó að gera sér grein fyrir að ef við viljum tengja heilsubætandi áhrif við súkkulaðið, þarf að vera minnst 70% af kakóþurrefnum í því, ekki sé bætt í það grænmetisolíum og rétt er að velja súkkulaði með bragðefni úr hnetum eða ávöxtum, frekar en karamellu- og núggatbragði.
En hér koma ástæðurnar ellefu:
1. Súkkulaði hjálpar þér að slaka á - Svissnesk rannsókn (úps!) sýnd að með því að borða 40g af dökku súkkulaði daglega dregur verulega úr magni streituhormónsins kortisóls.
2. Súkkulaði eykur einbeitinguna - Mjög dökkt súkkulaði er talið valda auknu blóðflæði til ákveðinna hluta heilans og auka árvekni og afköst í allt að þrjár klukkustundir.
3. Súkkulaði getur hjálpað sem vörn gegn krabbameini - Í dökku súkkulaði er að finna mikið magn af andoxunarefninu polyphenol en það getur dregið úr þeirri eyðileggingu sem frjálsar sameindir geta valdið. Lífefnafræðingar við King's College í London halda því fram að drekka þurfi 17 glös af appelsínusafa til á fá sömu áhrif og fást úr 50 grömmum af dökku súkkulaði.
4. Súkkulaði getur virkað sem hóstalyf - Í dökku súkkulaði er mikið af theobromine, sem bælir virkni í flakktauginni sem veldur hósta eins vel og kódín gerir - þó án þess svæfandi hliðarverkana.
5. Súkkulaði getur hjálpað sem vörn gegn hjartasjúkdómum - Níu ára löng sænsk rannsókn á yfir 31.000 konum leiddi í ljós að þær sem borðuðu einn eða tvo skammta af dökku súkkulaði vikulega drógu úr áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum um einn þriðja. Áhrifin eru rakin til eiginleika súkkulaðis til að draga úr bólgum en að auki inniheldur súkkulaðið mikið magn af flavóníðum sem er öflugt andoxunarefni.
6. Dökkt súkkulaði dregur úr löngun þinni í millibita -
Já, það er rétt! Hið mikla trefjamagn í dökku súkkulaði gerir það mun saðsamara en mjólkursúkkulaði, sem leiðir til þess að minni líkur eru á að þú sækir í feitan og kaloríuríkan millibita.
7. Súkkulaði getur aukið sólarvörn - Rannsókn sem unnin var í London leiddi í ljós að fólk sem borðaði súkkulaði með miklu magni af flavóníðum í þrjá mánuði, var helmingi lengur að fá roða á húðina (brenna) þegar það var í sól, en þeir sem borðuðu það ekki. Súkkulaði kemur ekki í staðinn fyrir sólarvörn, en það styður við hana.
8. Súkkulaðineysla gæti haft hemil á sykursýki - Köfnunarefnisoxíð, sem hjálpa til að stjórna insúlín næmi, eykst með flavóníðunum í súkkulaði, sem þýðir að neysla á dökku súkkulaði getur dregið úr insúlínþoli um helming.
9. Neysla á súkkulaði hressir þig við - Með aukinni serótínframleiðslu (hamingjuhormónið) í heilanum, getur súkkulaðibitinn í pásunni síðdegis gert þig mun glaðari. (Vissu það ekki allir?)
10. Súkkulaði bætir blóðflæðið - Dökk súkkulaði (kakó) hefur þá eiginleika að draga úr kekkjun og þynna blóðið og stuðlar þess vegna að betra blóðflæði um líkamann, en það getur bæði haft góð áhrif á útlit húðarinnar og dregið úr appelsínuhúð.
11. Súkkulaði getur stuðlað að betri sjón - Rannsókn sem unnin var við Háskólann í Reading (UK) gefur til kynna að það aukna blóðflæði sem verður til heilans þegar neytt er dökks súkkulaðis, geti aukið blóðflæði til sjónhimnunnar og leitt til þess að þú sjáir betur.
Einhver frægasta tilvitnun um súkkulaði er í kvikmyndinni Forrest Gump sem varð til þess að ég setti þessa mynd með greininni því, "Lífið er eins og konfektkassi."
Sjá heimildir HÉR