c

Pistlar:

7. september 2015 kl. 8:10

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

7 leiðir til að losna við sykurfíknina

sykur_i_769_mism_lit.jpgÍ sykurlausum september hér á Smartlandinu beinist athyglin ósjálfrátt að öllu sem skrifað er um sykur og í gær rakst ég á grein á Wellness Mama vefsíðunni, sem fjallar um sjö leiðir til að losna undir sykurfíkninni. Þetta er stytt útgáfa af grein hennar, en hvers vegna myndast þessi fíkn hjá okkur?

Mannfólkið er á vissan hátt innstillt á að sækjast í sykur og kolvetni allt frá fæðingu og það eru gildar ástæður fyrir því. Brjóstamjólk er náttúrulega sæt og í henni eru mikilvæg kolvetni sem næra ekki einungis barnið, því þau næra líka þarmaflóru þess. Kolvetnin í brjóstamjólkinni örva losun serótóníns og endorfína og virka slakandi. Þetta eru mikilvæg viðbrögð hjá ungbörnum og stuðla að tengingu milli móður og barns. Auðvitað inniheldur brjóstamjólkin líka nauðsynleg prótín og fitur, sem barnið þarf á að halda til að vaxa, en sæta bragðið er yfirgnæfandi.

Síðar á lífsleiðinni heldur þessi náttúrulega löngun í sykraðar fæðutegundir áfram og líkaminn heldur áfram að fá sína líffræðilegu umbun í gegnum sætindi. Hér áður fyrr var þessi löngun lífsnauðsynleg, en í dag gera heilu gangarnir af sætindum, nammibarir í öllum stórvöruverslunum og ótal gosdrykkjartegundir meiri skaða en gagn fyrir heilsu okkar. Samhliða framboði hefur neysla stóraukist og leitt til heilsufarsvandamála eins og offitu, þunglyndis og sykursýki 2, svo eitthvað sé nefnt.

1 - L-Glutamine í stuttan tíma
Dr. Julia Ross er með ákveðna kenningu í bók sinni The Mood Cure. Hún segir að sykurfíkn sem er afleiðing af streitu, lélegu mataræði og of litlum svefni leiði oft til skorts á ákveðnum amínósýrum, sem leiði til þess að ekki sé hægt að losna við fíknina með viljanum einum. Hún ráðleggur skammtíma inntöku á aminosýrunni L-Glutamine og heldur því fram að nokkrir 500 mg skammtar af henna losi fólk við sykurfíknina á einum eða tveimur mánuðum.

2 – Prótín og góðar fitur
Stundum má rekja sykurfíkn til of mikillar neyslu á kolvetnum og skorti á prótínum og fitum. Kolvetni veita líkamanum skjóta orku og við þurfum auðvitð á þeim að halda, en of mikil neysla leiðir til þess að það verða sveiflur á blóðsykri, sem aftur leiðir til fíknilöngunarinnar.

Prótín eru samsett úr amínósýrum og eru nauðsynleg fyrir framleiðslu á taugaboðum og gegna mikilvægu hlutverki í að halda jafnvægi á hormónum og hindra sykurfíkn. Góðar fitur eru uppspretta orku fyrir líkamann og hjálpa til við að skapa saðsemistilfinningu og koma í veg fyrir hungurtilfiningu. Langtímaneysla á góðum fitum og prótínum, ásamt miklu af grænmeti, er mikilvægt skref til að veita líkamanum nauðsynlegar fitusýrur, aminosýrur og örnæringu sem hann þarf á að halda til að viðhalda jafnvægi og losna við fíknir.

3 – Borðaðu þegar þú finnur til svengdar
Og vertu undirbúin með hvað á að borða…
Þegar þú finnur til mikillar svengdar ferðu ekki að taka gáfaðar ákvarðanir um hvað sé best að borða. Stundum er besta vörnin góð sókn og þess vegna gildir að skipuleggja sig, líkt og þeir gera sem sækja HREINT MATARÆÐI námskeiðin hjá mér.

4 – Hreyfðu þig
Hreyfing losar um sum af þeim sömu endorfínum og sykraðar matvörur gera og getur því komið í stað þeirra, sé hreyfing stunduð reglulega. Þú þarft ekki að stunda hlaup eða stífa þjálfun til að ná þessum árangri. Góð og hressileg gönguferð dugar og getur komið nægilega mikilli endorphinframleiðslu af stað til að þú losnir við sykurfíknina.

5 – Fáðu nægan svefn
Það er ekkert leyndarmál að svefn sé mikilvægur. Skortur á svefni hefur verið tengdur nánast öllum krónískum sjúkdómum og sífellt fleiri bætast á listann. Ef þú færð ekki nægan svefn eykst hætta á hjartaáfalli, heilablóðfalli eða krabbameinum. Einnig á háþrýstingi, nýrnasjúkdómum og sykursýki, svo of offituvanda og hormónaójafnvægi.

Með tilliti til sykurs, er svefn nauðsynlegur til að koma jafnvægi á blóðsykurinn og viðhalda réttu jafnvægi á hormónum sem stýra insúlínframleiðslunni. Talið era ð ein svefnlaus nótt geti leitt til þess að fólk sé með blóðsykurmagn þeirra sem eru á fyrstu stigum sykursýki. Leggðu því áherslu á að fá góðan nætursvefn.

6 – Króm
Læknar ráðleggja oft inntöku á krómi, þar sem það er notað við stýringu insúlíns á blóðglúkósa og er mikilvægt til að koma jafnvægi á blóðsykurinn. Sjálf hef ég relgulega tekið skammta af því, einkum ef ég hef verið undir miklu álagi.

7 – B-vítamín
B-vítamín eru talin hjálpa við meltingu á kolvetnum og eru líka mikilvæg fyrir marga aðra starfsemi líkamans. Við eyðum B-vítamínunum upp þegar við eru undir miklu steituálagi, neytum mikils sykurs, áfengis eða verðum fyrir álagi úr umhverfinu.

STAÐGENGLAR SYKURS
Nú er að finna mikið af sætuefnum sem notuð eru í stað sykurs, en með því að taka út sykurinn og nota annað sætuefni í staðinn, er ekki verið að taka á undirliggjandi vandanum. Í sumum tilvikum leiðir það bara til meiri vandamála, eftir því hvaða staðgengill er valinn. Þau sætuefni sem Wellness Mama ráðleggur að nota endrum og sinnum eru xylitol og stevia, sem eru einmitt sömu sætuefni og ég nota, þegar ég þarf að sæta eitthvað.

 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira