c

Pistlar:

26. maí 2020 kl. 13:48

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Hvað veistu um Vagus-taugina?

Ég hef fjallað um tenginguna milli þarma (ristils og smáþarma) og heila i gegnum Vagus-taugina á HREINT MATARÆÐI námskeiðum mínum, aðallega til að skýra út fyrir fólki að það séu bein tenging þar á milli.

En hvaða taug er þessi Vagus-taug og hvaða áhrif hefur hún? Hún er lengsta taug ósjálfráða taugakerfisins í mannslíkamanum, en taugakerfi okkar skiptist í miðtaugakerfi og úttaugakerfi. 

Miðtaugakerfið samanstendur af heila og mænu. Úttaugakerfinu er hins vegar skipt í sjálfráða (sympatíska eða viljastýrða) og ósjálfráða (parasympatíska) taugakerfið.

VAGUS-TAUGIN FLAKKAR VÍÐA

Á latnesku þýðir „Vagus“ sá sem flakkar um. Heitið tengist því hversu víða um líkamann taugin hefur áhrif á starfsemi hans. Vagus-taugin hefur áhrif á mikilvæga ósjálfráða þætti eins og hjartslátt, blóðþrýsting, öndunarhraða, svitamyndun og meltingarveginn svo eitthvað sé nefnt.

Vagus-tauginn stjórnar líka nokkrum vöðvum, þar á meðal þeim sem sjá um að við getum kyngt, svo og þeim sem snúa að hljóðmyndun og tali.

Vagus-taugin tengir heilann við nánast öll líffæri líkamans og þótt oft sé talað um Vagus-taugina í eintölu, eru taugarnar tvær. Baktaugin sem er frumstæðari grein Vagus-taugarinnar og kviðtaugin sem er nýrri grein Vagus-taugarinnar og tengist félagslegum samskiptum.

Í gegnum ósjálfráða taugakerfið stýrir Vagus-taugin samdrætti eða þenslu sjáaldurs augna, örvar munnvatnsflæði, stýrir samdrætti í lungnaberkju, hægir á hjartslætti, örvar iðrahreyfingu maga og þarma, bæði langsum og þversum, örvar losun á galli og hefur áhrif á eggjastokka og leg í konum og stýrir samdrætti þvagblöðrunnar.

HVERNIG TENGIST VAGUS-TAUGIN HEILSU OG LANGLÍFI

Vagus-taugin gegnir mikilvægu hlutverki í því að halda ónæmiskerfinu öflugu. Sterk tengsl eru á milli krónískrar (stöðugrar) streitu, ónæmisvirkni og bólgu í líkamanum. Undir skammtíma álagi örvar sympatíska taugakerfið losun á kortisóli og heldur ónæmiskerfinu í jafnvægi. Langtíma álag eða streita bælir hins vegar ónæmiskerfið.

Örvun Vagus-taugarinnar getur leitt til jafnvægis á ónæmiskerfi þínu og losað um ýmsa hormóna og ensím eins og asetýlkólín og oxýtósin. Afleiðingin yrði minni bólgur, aukið minni og slökunartilfinning. 

Það hefur líka sýnt sig að örvun Vagus-taugarinnar dregur úr ofnæmisviðbrögðum og streitutengdum höfðuverkjum.

HEILA- OG ÞARMAÖXULLINN

Tjáskiptanetið sem tengir heila og þarma hefur verið kallað heila- og þarmaöxullinn. Kerfið er flókið, en Vagus-taugin gegnir lykilhlutverki í þessari tengingu. Hún sendir boð í báðar áttir.

Áttatíu prósent af upplýsingunum sem fara um Vagus-taugina, streyma frá líkama til heila. Einungis tuttugu prósent af Vagus-tauginni eru frálæg, en það þýðir að merkin eru send frá heila til líkama.

Rannsóknir hafa sýnt að örveruflóra þarma getur örvað Vagus-taugina og að slík örvun getur haft mikil áhrif á heilastarfsemi og hegðun fólks. Góð örveruflóra dugar þó ekki alltaf til, því rannsóknir hafa sýnt að streita truflar boðin sem send eru um Vagus-taugina og veldur meltingarvandamálum.

Léleg starfsemi Vagus-taugar skýrir af hverju streita dregur úr framleiðslu á magasýrum og meltingarensímum, eykur gegndræpi þarma (lekir þarmar), – sjá grein: 9 MERKI UM LEKA ÞARMA – veldur ójafnvægi í örveruflórunni og leiðir til lélegrar næringarupptöku.

Heimildir: Dr. Eva Detko, PhD og Dr. Arielle Schwartz

Mynd: CanStockPhoto / Alex_Kock

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira