c

Pistlar:

3. september 2024 kl. 10:27

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Ekki á Facebook - Ekki til!

Sennilega eru fáar þjóðir sem nota Facebook jafn mikið og Íslendingar gera. Samskipti manna á milli fara í miklum mæli fram í gegnum Messenger og það er ekki lengur spurt um síma hjá fólki, hvað þá netfang, heldur sagt “Finn ég þig ekki á Facebook?” Þegar maður dettur út af Facebook hættir maður því að vera til.

Ég kynntist þessu all harkalega í mars á þessu ári, þegar Facebook reikningurinn minn var hakkaður. Hakkararnir komust líka inn á viðskiptareikning minn og skuldfærðu á kreditkort fyrirtækisins auglýsingar fyrir um 100 þúsund krónur, áður en ég gerði mér grein fyrir því og lét loka kortinu. Ég þurfti að greiða fyrir auglýsingarnar og sækja svo um eftirkröfur í gegnum bankann minn, sem tóku um mánuð að skila sér.

REIKNINGNUM LOKAÐ

Í kjölfar hökkunarinnar lokaði Facebook reikningnum mínum undir því yfirskyni að ég hefði brotið “samfélagsreglur” þeirra. Ég reyndi ótal leiðir til að skýra mál mitt, en allt kom fyrir ekki. Gervigreindin sem svarar póstum á Facebook svarar bara með forrituðum svörum, svo þau eru alltaf þau sömu.

Ef þetta er það sem við megum vænta af gervigreindinni í framtíðinni, finnst mér við ekki eiga von á góðu.

EKKI HÆGT AÐ NÁ Í ÞIG

Þegar ég datt út af Facebook heyrði ég gjarnan frá vinum mínum að ekki væri hægt að ná í mig. Ég benti þeim á að ég væri nú enn með með síma og netfang – en það er greinilega ekki lengur talin samskiptaleið.

Ég komst hins vegar að því að það var bara nokkuð gott að vera óáreittur um tíma og aðeins pæla í framtíðinni og hvernig ég ætlaði að taka á málum.

YOUTUBE OG INSTAGRAM

Ég var lengi búin að velta því fyrir mér að byrja með þætti á YouTube, svo mér fannst eins og þessi lokun á Facebook væri merki um að ég ætti að hætta að velta því fyrir mér og gera eitt hvað í málinu.

Ég tók því stökkið út í djúpu laugina og byrjaði með YouTube þætti fyrir tæpum tveimur mánuðum síðan. Ég kann bara vel við mig þar og ætla að halda áfram að finna áhugavert fólk sem er ekki alltaf í fjölmiðlunum og spjalla við það á rásinni, auk þess sem ég verð alltaf með umfjöllun um heilsumál inn á milli.

Svo hef ég verið að aðeins duglegri að pósta á Instagram, því þótt FB hafi lokað á mig, hélst Instagram reikningurinn opinn.

Mér tókst reyndar eftir nokkra mánuði að stofna nýjan reikning á Facebook í gegnum símann minn (mynd af mér í bleikum jakka á prófílnum), en ég hef allt í einu afar takmarkaðan áhuga á að vera þar inni. Svona er bara lífið…

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira