c

Pistlar:

20. janúar 2025 kl. 15:37

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Fyrsta nýja Tungl ársins 2025

Ég var nú eiginlega búin að lofa sjálfri mér því að vera ekki með greinar um stjörnuspeki þetta árið, en hef nú þegar rofið það loforð í annað sinn á árinu. Í þetta sinn er það vegna þess að nýja Tunglið í Vatnsbera sem kveiknar þann 29. janúar kl. 12:36 hér á landi samkvæmt GMT tíma markar svo miklar breytingar að ég gat ekki látið vera að deila upplýsingum um það.

Þetta er fyrsta nýja Tungl ársins, því árið byrjaði með fullu Tungli þann 13. janúar. Sól og Tungl eru alltaf í samstöðu á nýju Tungli, í þetta sinn á níu gráðum í Vatnsbera. Í samstöðu við þau eru svo Merkúr á tveimur gráðum og Plútó á tæplega tveimur gráðum eða einni gráðu og fimmtíu og sex mínútum. Þetta nýja Tungl markar líka upphafið að nýju ári hjá kínverjum, því ár Snáksins hefst þann 29. janúar.

FLÝTUM OKKUR HÆGT

Línulegur tími er að leysast upp og það er mikill hraði á öllu. Við erum að öðlast meiri fjölvídda tilfinningu samhliða því sem vitund okkar víkkar út. Hraðinn kemur til með að aukast þegar líður á árið, svo samhliða þeirri aukningu er mikilvægt að hægja á sjálfum sér og mynda jarðtengingu – eða flýta sér hægt eins og gjarnan er sagt.

Þá er gott að taka sér stutta stund nokkrum sinnum á dag – 3-5 mínútur – og stunda Hjartaöndun. Anda inn í hjartað eins og það sé lunga og mynda þannig tengingu á milli hjarta og heila. Hugleiðsla á morgnana í 5-10 mínútur getur líka undirbúið okkur fyrir daginn og gert það að verkum að við höldum af meira jafnvægi þegar við leggjum af stað inn í hann en ella.

Tungl í Washington DC-20.01TUTTUGASTI JANÚAR STÓR DAGUR Í USA

Mars er mjög öflugur þessa stundina því plánetan er sérlega nálægt Jörðu. Þann 20. janúar þegar nýr forseti verður svarinn í embætti í Bandaríkjunum, verður Mars í transit í samstöðu við Merkúr í því korti fyrir Bandaríkin, sem miðast við 4. júlí 1776 klukkan 17:10 síðdegis í Philadelphia. Sú afstaða lendir í sjöunda húsi kortsins sem bendir til þess að mörg reiðiorð verði látin falla í kringum bæði þann nítjánda og tuttugasta mánaðarins. Vegna mikils kulda sem spáð er í Washington hefur verið ákveðið að hafa vígsluathöfnina innandyra, en almennt hefur hún verið utandyra.

SÓL OG PLÚTÓ Í SAMSTÖÐU Í WASHINGTON

Sól og Plútó eru í mjög þéttri samstöðu þann 20. janúar klukkan 12:00 á hádegi þegar athöfnin fer fram. Plútó fór inn í Vatnsberann þann 19. nóvember 2024 eftir rúmlega 240 ára ferðalag í gegnum hin stjörnumerkin og verður þar fram í janúar árið 2044. Þetta er því í fyrsta sinn sem Sól og Plútó eru í samstöðu eftir að Plútó fór inn í Vatnsberann, en síðast varð þannig samstaða árið 1798.

Plútó var í Vatnsberanum frá árinu 1777 til ársins 1798 en á þeim árum urðu magnaðar breytingar í samfélögum víða um heim, meðal annars ameríska byltingin og stofnun Bandaríkjanna, franska byltingin og stofnun lýðræðis í Frakklandi og upphaf iðnbyltingarinnar. Þessi dagur er því mjög öflugur dagur og kemur til með að marka upphaf róttækra breytinga, sem væntanlega eiga eftir að hafa dómínóáhrif um allan heim. Það ber þó að taka fram að þessi ályktun er út frá stjörnuspekilegum líkindum, ekki pólitískum.

NÝJA TUNGLIÐ OG ORKAN Í KRINGUM ÞAÐ

Sól og Tungl eru á níu gráðum í Vatnsbera, svo skoðið hvar sú gráða lendir í persónulegu kortunum ykkar og hvaða plánetur eru í tveggja til þriggja gráðu fjarlægð frá henni, sitt til hvorrar hliðar, til að meta hvar og í hvaða húsi kortsins þær eru að hafa áhrif á líf ykkar. Nánari upplýsingar um húsin er að finna í greininni TÓLF HÚS STJÖRNUKORTANNA. Nýtt Tungl er fullkominn tími til að setja sér ný markmið eða yfirfara þau gömlu og endurbæta og láta þau taka mið af því í hvaða húsi Tunglið lendir.

N.T. 29.01.25Þetta nýja Tungl markar nokkurs konar upphafspunkt á þessu nítján ára ferli Plútós í Vatnaberanum. Við eigum eftir að sjá orkuna sem honum fylgir birtast meira í heiminum, meðal annars í kringum ýmsar tækninýjungar tengdar flugi og ferðamáta, framþróun í læknisfræði og lækningum og tengingum við aðra íbúa Alheimsins.

Margir kalla þetta ár framundan ár sannleikans eða ár vakningarinnar, en hvað sem við veljum að kalla það, eru líkur á að það verði mjög byltingarkennt. Við eigum því væntanlega eftir að sjá mikið af mótmækum og byltingum, en það er hluti af tilkomu hinnar Nýju Jarðar og nýrra skipulagsforma, sem stefna að því að flýta fyrir niðurrifi og hruni gömlu kerfanna, sem eru úr sér gengin.

JÚTÍTER, MAKEMAKE OG TUNGLIÐ

Það er stór samhljóma þríhyrningur í kortinu á milli Sólar og Tungls í Vatnsbera, yfir í Júpiter á ellefu gráðum í Tvíburum og þaðan til dvergplánetunnar MakeMake á ellefu gráðum í Vog. Þetta eru loftmerki, en orka þeirra ber með sér félagslega þróun, myndun nýrra taugatenginga í manninum sjálfum og ný upplýsingakerfi. Líkur eru á að fram komi alls konar nýir samfélagsmiðlar og ný internet sem eru án ritskoðunar.  

Vatnsberinn er tengdur sjálfstæði og Tvíburarnir eru það í raun líka og Júpiter er mjög tengdur sannleikanum og framtíðinni og á þessu nýja Tungli erum við að sá fræjum fyrir framtíð okkar. Dvergplánetan MakeMake er nefnd eftir guð Rapa Nui fólksins á Páskaeyjum og orka hennar er mjög tengd endurnýjunarkraftinum. Alan Clay sem rekur Dwarf Planet University talar um MakeMake sem hærri birtinguna af Úranusi, sem  gerir okkur kleift að setja fram nýja heimssýn, en um það snýst þetta nýja Tungl í Vatnsbera.

MakeMake hjálpar okkur líka að afhjúpa þann hluta meðvitundarinnar sem hefur alltaf verið til staðar en hefur verið hulinn okkur alla ævi, jafnvel mörg æviskeið. Orka MakeMake hjálpar okkur því að fæða þessa nýju meðvitund um nýja jörð sem jafnframt er tengd fornri speki líka, ásamt sjamanískum aðferðum í helgisiðum og tengingu við Gaia eða Jörðina sem lifandi vitundarveru.

VARUNA OG KOSMÍSKA REGLAN

Annað öflugt tákn um fæðingu þessar nýju meðvitundar er dvergplánetan Varuna. Hún er á tæpum níu gráðum í Ljóni í hundrað og áttatíu gráðu andstöðu við Sólina og nýja Tunglið á tæpum tíu gráðum í Vatnsbera. Plánetan Varuna er nefnd eftir hindúískum sköpunarguði, sem hjálpaði til við að skapa kosmínska reglu og refsar þeim sem brjóta helg lög, en allar þessar dvergplánetur sem eru á sviði ótakmarkaðra möguleika (Quantum sviðinu) eru táknrænar fyrir sterk heilindi og siðferði. Þar sem MakeMake er í Voginni er plánetan táknræn fyrir samvinnu og sanngjarnt jafnvægi í sátt við Jörðina og náttúruna.

MakeMake er reyndar líka í níutíu gráðu spennuafstöðu við dvergplánetuna Quaoar á tíu gráðum í Steingeit og henni tengist ný viska og ný meðvitund, sem snýst um að komast úr úr ringulreiðinni og standa saman sem samfélag, sem kemur saman og skapar gleði í gegnum söng og dans, til að hækka tíðnina.

NESSUS OG SATÚRNUS

Dvergplánetan Nessus (ekki teiknuð inn á kortið) er á sautján gráðum í Fiskum í mjög þéttri samstöðu við Satúrnus. Nessus er táknrænn fyrir „hingað og ekki lengra“ orkuna og Satúrnus er táknrnææn fyrir takmörk. Nessus er mjög tengdur gaslýsingu, eitrun í blóði, ónæmiskerfinu og dauða, en nú er komið nóg af slíku. Afstaða plánetanna á þessu nýja Tungli gefur sterka tilfinningu fyrir endalokum og upphafi einkum vegna þess að Norðurnóðan er nú komin inn í Fiskana og er á síðustu gráðunni þar.

NORÐURNÓÐAN

Norðurnóðan er táknræn fyrir stefnu heildarinnar fram á við og hún er núna rétt skiðin inn í Fiskana, en nóðurnar færast aftur á bak, í raun á móti plánetunum. Nóðurnar færast réttsælis um stjörnukortin, á meðan pláneturnar færast rangsælis. Þarna aftast í Fiskunum er Norðurnóðan í samstöðu við bæði Venus og Neptúnus, sem er vísbending um að við höldum áfram héðan í frá með skilyrðislausan kærleika að leiðarljósi.

MakeMake er í hundrað sextíu og fimm gráðu afstöðu við þessa samstöðu Norðurnóðunnar, Venusar og Neptúnusar og þessar plánetur eru merki um enduruppgötvun okkar á því að við þurfum að vera tengd í gegnum einingarvitundina í skilyrðislausum kærleika.

ÚRANUS NÁLGAST SEDNA

Plánetan Úranus er að nálgast dvergplánetuna Sedna, sem er fremst í Tvíburunum. Eftir nokkra mánuði verða þessar plánetur í samstöðu, en líklegt er að sú samstaða verði táknræn fyrir myndbreytingu hjá mannkyninu. Úranus er nú að bora sig niður til að breyta um stefnu og mun byrja að hreyfast beint áfram daginn eftir þetta nýja Tungl.

Plánetan kemur þó til með að halda sig á tuttugu og þremur gráðum í Nauti allan febrúar og fram til 13. mars, svo ef þú ert með einhverjar plánetur á tuttugu og tveimur til tuttugu og fjórum gráðum í Nauti, eða hvaða af föstu merkjunum sem er, það er að segja Ljóni, Sporðdreka eða Vatnsbera, eru líkur á að þú finnir fyrir einhvers konar eirðarleysi, æsingi eða meiri frelsisþörf á næstunni. Að þig langi í eitthvð nýtt og viljir brjótast út úr þeim hjólförum sem þér finnst þú sitja í. Þörfin fyrir frelsi, sjálfstæði og sannleika kemur alla vega til með að vera mjög sterk á þessum tíma.

Í SÍÐASTA SINN

Þetta er í síðasta sinn sem Úranus er á tuttugu og þremur gráðum í Nauti næstu 84 árin, en staða hans á þessari gráðu er nánast sú sama og samstaða Júpiters og Úranusar varð á þann 20. apríl árið 2024. Sú samstaða snerist um þessa nýju vakningu. Í kringum þessar breytingar Úranusar megum við búast við meiri skjálftavirkni, meira roki og stormum og jarðarbreytingum almennt.

Orka Úranusar getur líka tengst netárásum, rafmagnsleysi, stórum áföllum og óvæntum tengingum utan úr geimnum. Úranus er líka tengdur alls konar tækniþróun.

TÓLFTA HÚSIÐ STÓRT

Tólfta húsið í kortinu fyrir nýtt Tungl í Reykjavík þann 29. janúar er frekar stórt. Þar eru þrjár áhugaverðar dvergplánetur, það er að segja Chiron hinn særði heilari, Eris sem nefnd er eftir systur Mars og hefur heilmikla stríðsorku í sér, en berst jafnframt fyrir réttlæti og svo Sedna, sem er nefnd eftir gyðju Grænlendinga, sem réð yfir undirdjúpunum.

Úranus er líka í þessu húsi og hann umbyltir hlutunum og kemur þeim upp á yfirborðið, jafnvel með eldgosum. Mér finnst líka eins og þetta nýja Tungl marki upphafið á því að gerðar verði upp gamlar syndir og særindi (Chiron) í samfélaginu, að ekki sé lengur hægt að skilja hluta samfélagsins útundan (þá sem leita aukins réttlætis eins og öryrkjar, fatlaðir og eldri borgarar) og þá sem sviknir hafa verið af feðrasamfélaginu (Sedna) með alls konar brölti þeirra sem hafa stýrt stofnunum og stjórnum samfélagsins.

Tólfta húsið er líka tákn endaloka og Sedna er að kenna okkur að sleppa tökum á því sem við þurfum ekki lengur á að halda, hvort sem það er fatnaður, munir, pappírar, gamlar hefðir og vanamynstur, eða í raun hvað sem er, sem er að íþyngja okkur í þeim umbreytingum sem Jörðin og við erum að fara í gegnum.

Heimildir: Þessi grein er að hluta til unnin upp úr stjörnuspekiskýringum Pam Gregory

Langar þig að eignast persónulegt stjörnukort með dvergplánetunum?
Þú getur pantað þér kort með því að SMELLA HÉR!

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.

Myndir: Kort af plánetuafstöðum þann 29. janúar fyrir Reykjavík og af plánetuafstöðunum fyrir Washington þann 20. janúar.

Shutterstock.com

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira