Jólin nálgast óðum. Mér finnst ég stundum vera í kapphlaupi við tímann fyrir jólin. En þar sem ég er svo rík að búa yfir daglegri hugleiðsluiðkun, þá staldra ég við á hverjum morgni og anda að mér jólailminum innra með mér. Og þrátt fyrir að dagurinn sé stundum tóm hlaup og mikið að gera þá er oftast einhver hluti af mér sem man eftir innra rými sem er mun stærra en stærsta Bónusverslun eða umferðaráin sem lötrast eftir Miklubrautinni. Það er þrátt fyrir allt mjög nærandi.
Ég bý líka við þau forréttindi mitt í jólaamstrinu að búa með litlum anga sem gefur mér innsýn inn í töfraveröld jólanna með opnum huga og gleði yfir litlum hlutum. Eins og púslinu sem hann fær á hverjum morgni í jóladagatalinu sem við keyptum í Ikea. Og hann minnir mig á þennan hluta í mér sem kunni að njóta þess sem við lærum síðar að líta á sem sjálfsagðan hlut. Og sem kunni að gleðjast yfir litlu.
Jólin eru hátíð barnanna og barnsins sem býr innra með okkur öllum. Og við fullorðna fólkið sem eigum það til að gleyma töfrunum sem búa í núinu getum eftir sem áður rifjað það upp í gegnum augu barnanna okkar - ef við gefum okkur tíma til þess.
Á jólunum höldum við hátíð ljóssins og fögnum því að sólin tekur að rísa hærra og hærra með hverjum degi úr hyldýpi myrkursins. Ljósið fæðist enn á ný og sigrar myrkrið. Eftir það tekur daginn að lengja hröðum og öruggum skrefum.
Um leið og fæðing Jesú er tákn fyrir þessa fæðingu ljóssins á nýju ári þá táknar hún líka fæðingu okkar eigin vitundar. Fæðingu ljóssins sem við geymum innra með okkur. Stundum nefnt Kristsvitund.
Jógaiðkun hefur þann tilgang æðstan að vekja þessa meðvitund og kveikja þannig á ljósinu innra með okkur. Jóga þýðir sameining – samruni huga, líkama og sálar. Í gegnum jógaiðkun og hugleiðslu lærum við að upplifa óendanleikann innra með okkur sjálfum. Ef við leyfum huganum reglulega að upplifa óendanlegan sjóndeildarhring þá er auðveldara að sjá stóru myndina í öllum samskiptum og lífið verður einfaldara.
Við búum flest við mikinn hraða og álag. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að kunna að hlaða batteríin og rækta með sér leiðir til að styrkja allar hliðar þess að vera manneskja. Það er ekki nóg að stunda líkamsrækt og byggja upp vöðvamassa ef við erum síðan í ójafnvægi og eigum erfitt með að höndla daglegt líf.
Kundalini jóga er ævagamalt form af jóga sem hefur notið sívaxandi vinsælda um allan heim. Þetta jógaform er aðeins nýkynnt hér á landi en hefur nú þegar öðlast stóran aðdáendahóp. Kundalini jóga byggir á mjög markvissri tækni sem hjálpar okkur að standa sterk í gegnum álag og komast í snertingu við kyrrðina innra með okkur á fljótvirkan hátt.
Með því að iðka Kundalini jóga fáum við tæki til þess að koma jafnvægi á innkirtlastarfsemina, styrkja taugarnar, auka lungnaþol og hreinsa blóðið. Við lærum að öðlast jákvæða, sjálfseflandi hugsun og byggja með okkur innri styrk svo við getum náð árangri í lífinu hvort sem er í samskiptum eða verkefnum hversdagsins.
Ef við nýtum okkur þau verkfæri sem jóga getur fært okkur þá eigum við auðveldara með að tengja við það sem skiptir máli og njóta þess að vera með fjölskyldunni okkar hvort sem er um jól eða páska – eða á venjulegum mánudegi.
Þegar við skoðum jólin í þessu ljósi, þá verður það kannski skýrara fyrir okkur hvernig jólahátíðin getur dregið fram það besta í okkur. Kristur gaf okkur fyrirmynd til að lifa eftir – ekki til að við tilbæðum hann, heldur til að sýna okkur hvað við getum verið ef við gerum okkar besta.
Ef við kunnum leiðir til að tengja við þennan hluta okkur sjálfum getum við glatt okkar nánustu og lýst upp okkar eigin meðvitund. Við getum kannski byrjað á að leggja aðeins minni áherslu á að gefa efnislegar gjafir og meiri áherslu á að vekja okkar innri mann. Við getum um jólin hugsað um að gefa gjafir eins og gagnkvæman skilning, fyrirgefningu og umburðarlyndi. Í stað þess að hlaupa milli búða gætum við þjappað saman orkunni okkar og leitað djúpt innra með okkur eftir innri friði og ljósi Kristsvitundar okkar. Það sem endurspeglast í þessum gjöfum er fullkomin gjöf til fjölskyldu, vina og samfélagsins. Þá komumst við kannski í snertingu við hina sönnu jólagleði.
Fyrir þá sem vilja nýta sér gjafir jógaiðkunar á aðventu er hægt að sjá nokkur stutt myndbönd á heimasíðu Andartaks: http://andartak.is/youtube/jola-joga/
Guðrún Darshan www.andartak.is