c

Pistlar:

13. janúar 2014 kl. 14:20

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Nýárssól og nýtt upphaf

Janúar er upphaf á nýju ári. Hann markar nýtt upphaf sem fæðir af sér marga hluti eins og ný áform, nýja sýn á hlutina og tilfinningu fyrir endurnýjaðri skuldbindingu við líf okkar.

Janúar er góður tími til að skapa sér nýja framtíð. Til þess að taka á móti nýjum venjum þurfum við að sleppa þeim gömlu sem oft getur verið átak. Ef við hugsum um það sem við viljum fá í staðinn fyrir það sem var þá er það oft auðveldara. Ef við sjáum fyrir okkur að við séum að skuldbinda okkur til að sinna okkar eigin vellíðan, hamingju og tilgangi í lífinu þá verður það mun auðveldara en að hugsa um það sem okkur finnst neikvætt og þarfnast breytinga. Skuldbinding er fyrsta skrefið í átt að nýju sjálfi – skuldbinding við það besta í okkur sjálfum.

Janúarmánuður getur verið mjög notalegur með sína fallegu, dularfullu birtu.  Þetta er tími til að horfa fram á eitthvað nýtt, að horfa til framtíðar. Við getum látið okkur dreyma um vorið, um blóm og ný græn lauf – um nýtt líf.  Og við getum einbeitt okkur að því að vekja ljósið innra með okkur – og horfast í augu við myrkrið. 

Margir eiga erfitt með að sættast við þessa stuttu og oft vindasömu daga og verða þungir og þreyttir. Þá er svo mikilvægt að anda að sér vindinum og gefa sér tíma fyrir sjálfan sig.

Á veturna er gott að hugsa um að endurnýja kraftana og endurnærast. Í jógafræðunum er til hugtak sem kallast “Ojas”og þýðir kraftur eða hreysti og er afleiðing af góðri meltingu og lífsstíl sem styður okkur og styrkir. Þessi innri kraftur gefur okkur gott ónæmiskerfi og hjálpar okkur að tengja við okkar æðri vitund, kærleika og hreinar hugsanir. Einmitt á þessum tíma árs er “Ojas” að endurnýja sig í líkamanum.  Við getum hjálpað til með þvi að gefa okkur tíma til að taka því rólega og hugsa vel um okkur sjálf, hvað við borðum og reyna að draga úr áreitinu eins og við getum.

Janúar er kannski ekki sá tími sem við notum til að taka til í bílskúrnum – þetta er tími breytinga.  Þetta er árstími nýs upphafs og endurnýjunar á okkur sjálfum og í lífi okkar.  Þú gætir til dæmis tekið þér stund til að skrifa niður drauma þína og jákvæðar áætlanir. Þú getur búið til úr þeim staðhæfingar sem þú segir upphátt þegar þú vaknar. Þetta er tími til að taka því rólega, að hafa hlýtt og notalegt í kringum sig og skemmtilegan félagsskap. Tími til að leyfa kærleikanum í hjartanu að vaxa og blómstra í hversdagslífinu. 

Andartak jóga- og heilsustöð    andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira