c

Pistlar:

20. febrúar 2014 kl. 11:46

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Gjöfin að vera kona - dóttir, móðir, amma, gyðja

12134476_xxl.jpgKonur eru alltaf að takast á við breytingar í gegnum ævina. Í hverjum mánuði með mismunandi hormónaflæði og í gegnum ævina í þeim mismunandi hlutverkum sem konan gegnir. Dóttir, móðir, amma – konur samsama sig mjög sterkt með hlutverkum sínum – mun sterkar en karlar gera – og þess vegna hafa þessar breytingar mjög djúp áhrif á okkur. 

Konur eru í eðli sínu mjög sterkar – á annan hátt en karlar. Þær búa yfir ríku innsæi, sköpunarkrafti og tilfinningalegum styrk. Ef innsæið er sterkt þá finnum við ekki til ótta heldur treystum okkar innri leiðsögn og vitum hvert við stefnum. Til þess að nýta þennan innra styrk okkar þurfum við að vera meðvitaðar um hann og geta sótt hann innra með okkur. Þess vegna er öll andleg rækt mjög mikilvæg fyrir konur.

Konur þurfa að næra andann til að upplifa hamingju. Þær geta gert það í gegnum það að vera skapandi, með því að upplifa náttúruna og svo er hugleiðsla mjög holl og góð fyrir konur. Hugleiðsla kennir okkur að skynja dýptina innra með okkur og gefur okkur sjálfstraust. Og hún hjálpar okkur að hreinsa undirvitundina. Konur sækja öryggi sitt í víddina innra með sér og finnst því oft eitthvað vanta í líf sitt þó þær njóti veraldlegs öryggis ef þennan þátt vantar. Ef þær gefa sér ekki tíma eða rými til að næra þetta samtal við vitru konuna hið innra.

Konur hafa í gegnum kvennabaráttuna haft tilhneigingu til þess að reyna að herma eftir styrk karlmanna og reyna að verða sterkar á þeirra forsendum en ekki sínum eigin. Það er hins vegar mikilvægt fyrir okkur konur að læra að átta okkur á hvað það merkir að vera sterkar og halda samt áfram að vera konur - ekki herma eftir þessari ímynd af sterkum karlmanni. 

Kona getur haft mikil og jákvæð áhrif í kringum sig ef hún er í góðu jafnvægi en að sama skapi getur hún haft mjög neikvæð áhrif á umhverfi sitt ef hún er það ekki. Þetta getur brotist út sem nöldur eða óánægja þar sem við gleymum að meta það sem við höfum. Þegar kona er neikvæð hefur það margfalt meiri áhrif en þegar karlmaður gerir það af því hún er hjarta heimilisins. Við þurfum að átta okkur á ábyrgðinni sem felst í því að vera kona. Það sem er styrkur konunnar ef hún er í jafnvægi getur snúist gegn henni ef hún er í ójafnvægi og gert hana óstöðuga og óánægða.

Einn af veikleikum konunnar er þegar henni finnst hún þurfa að fá viðurkenningu frá umhverfi sínu í stað þess að meta sig sjálf að verðleikum. Jógafræðin kenna okkur að mótvægið liggi í því að finna til þakklætis.

Kundalini jógafræðin búa yfir miklu flæði af visku fyrir konur – um það hvað það þýðir að vera kona – um styrk hennar og veikleika, um það hvernig hún getur átt innihaldsríkari samskipti við sína nánustu og um hæfileika konunnar til að skapa sinn eigin veruleika.  Eitt af því sem jógafræðin fjalla um sem er mjög heillandi eru “Mánasvæði konunnar”.  Ellefu svæði á líkama konunnar sem eru virk í tvo og hálfan dag í senn. Hverju mánasvæði fylgir ákveðin tilfinning eða tjáning. Mánasvæðin eru ein leið til að skilja þær miklu sveiflur sem konan ferðast í gegnum í hverjum mánuði. 

Yogi Bhajan, meistari í Kundalini jóga hafði oft að orði að siðferðisstyrkur hverrar þjóðar birtist í andlitum kvennanna. Hann átti við að þegar karlmenn heimsins bera virðingu fyrir konum og börnum þá yrði friður á jörðinni. Og að þegar konur sýna hver annnarri vinsemd og kærleika þá þorna tárin. “Þú heldur kannski að konan sé fótaþurrka við útidyrnar”, sagði Yogi Bhajan, “en ég held að hún sé hliðið að himnaríki. Þú heldur kannski að konan sé “chick” (gella / skvísa) en ég trúi að hún sé eins og örn. Þokkafullar hreyfingar hennar halda jörðinni á sporbaug sínum.”

Það er afar mikilvægt fyrir konur að leita leiða sem henta hverri og einni til að koma sér í jafnvægi svo hún geti dvalið í styrk sínum, flogið hátt og blómstrað og haft jákvæð áhrif á samfélagið í leiðinni. 

 Jógafræðin eiga svo sannarlega erindi til kvenna í dag og geta kennt okkur að hlusta og skilja okkur sjálfar betur og finna okkar sanna styrk. Við í Andartaki bjóðum upp á námskeið sem gefa konum færi á að kynnast visku jógafræðanna fyrir konur. Hægt er að lesa nánar um það á heimasíðu Andartaks - sjá hér: Dansaðu, lifðu, hlæðu, elskaðu - og slakaðu á.

Guðrún Darshan Andartak jóga- og heilsustöð  gudrun@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira