c

Pistlar:

22. apríl 2014 kl. 10:45

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Ósýnilegir töfrar lífsins

images-5.jpgVið erum öll með áru eða rafsegulsvið í kringum okkur, hvort sem við skynjum hana eða ekki. Áran gefur okkur næmni og vernd. Í gegnum það að skynja áruna okkar getum við líka lært að skynja fíngerðari víddir í okkur sjálfum. Sterk ára verndar okkur og gefur okkur geislandi nærveru.

Árið 2014 er samkvæmt jógískri talnaspeki ár árunnar. Áran tengist tölunni sjö- en hún fæst með því að leggja saman tölurnar í árinu – þversumman af 2014 er sjö.


Jógísk talnaspeki á rætur sínar í fornri speki jógafræðanna og var þróuð áfram til að hjálpa okkur að skilja betur lífsferðalag okkar, styrk okkar og veikleika og hvernig við getum nært sambandið við okkar innra og æðsta sjálf.  

Kundalini jóga býður upp á virk tæki til þess að nýta talnaspekina á praktískan hátt. Í gegnum það að þekkja tölurnar okkar getum við styrkt veika þætti í okkur sjálfum og nært styrkleika okkar með jógaiðkun og hugleiðslu.

Talan sjö í Kundalini jógafræðunum stendur eins og áður sagði meðal annars fyrir áruna okkar.  Áran gefur okkur vernd og næmni fyrir umhverfinu. Þegar við lifum hratt og gefum okkur ekki tíma til að upplifa og vinna úr hlutum – þá verður hugurinn ofhlaðinn – og það sést í árunni. Áran okkar birtir það sem við höfum ekki náð að vinna úr. Eitt af því sem styrkir áruna er því að fyrirgefa – fyrirgefa okkur sjálfum og öðrum – hvað sem það er sem við höfum ekki náð að sleppa úr vitund okkar.

Það eflir líka áruna að setja okkur markmið
– að lyfta huga okkar hærra og gefa lífi okkar tilgang. Og að sjá það sem er og dvelja í andartakinu í stað þess að vera alltaf að leita að einhverju öðru en því sem við höfum - að upplifa í stað þess að vera fangar hugans.

Þetta er ár til þess að skipta út sektarkennd fyrir heilbrigða skynsemi. Að fyrirgefa og tengja okkur þannig á nýjan hátt við fortíðina. Að eiga samband við fortíðina sem er laust við þörf fyrir að amast út í okkur sjálf eða aðra.

Þrátt fyrir að við vitum að enginn annar ber ábyrgð á okkar eigin upplifun þá eigum við það flest til að falla í þá gildru að ásaka aðra og dæma. Og jafnvel þó við finnum ekki fyrir þessum eiginleikum í dag þá eru mynstur þeirra til í undirvitund okkar – og í árunni okkar.  

Þess vegna þjónar það tilgangi að hreinsa til í huganum – og í árunni þar með. Það er ekki síður mikilvægt að hreinsa til í huganum en að baða líkamann. Það er mjög nærandi venja að hugleiða daglega. Það þarf ekki að taka langan tíma.  Hægt er td að byrja á 3ja mínútna daglegri hugleiðslu. Hugleiðslan "kirtan kriya" kemur jafnvægi á hugann og á áruna og er mjög aðgengileg fyrir óvana hugleiðsendur. Hér má lesa um hana.

Fyrir árið 2014 er hægt að velja hugleiðslur sem hjálpa okkur að fyrirgefa, hreinsa burtu drauga fortíðarinnar, hugleiðslu fyrir aukinn styrk hugans, fyrir tæran huga og hugleiðslu sem hjálpar okkur að sjá hið óséða og þekkja hið óþekkta.  

Ef við gefum okkur það að eiga daglega stund með okkur sjálfum – hvaða form sem við veljum að setja henni – verðum við sterkari og hamingjusamari.  

Það er líka góð iðkun að skrifa – og tæma þannig hugann og sjá hugsanir okkar í skýrara ljósi. Til að endurskipuleggja hugmyndir okkar um veruleikann til að hefja okkur upp yfir vandamálin og sjá þau minnka með yfirsýninni.  

Lífið er svo ríkt af ósýnilegum töfrum. Ef við reynum að skilja allt og skilgreina þá verður lífið svo grátt og litlaust. Áran og víddirnar innra með okkur tilheyra þessum djúpu óleystu ráðgátum sem við getum notið þess að upplifa og skynja og kannski getum við lært eitthvað nýtt um okkur sjálf og lífið í leiðinni.

Guðrún Darshan - Andartak jóga- og heilsustöð  andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira