Hugurinn er okkar mikilvægasti félagi. Við þurfum að vera í góðu sambandi við hugann til blómstra og lifa hamingjusömu lífi. Jógarnir segja að með því að sigrast á huganum getirðu sigrað heiminn.
Það eru tvær leiðir til að eiga samband við hugann; annað hvort stjórnar þú huganum eða hugurinn stjórnar þér! Ef hugurinn fær að ráða þá verðum við stefnulaus – eins og lauf í vindi – og förum að láta tilfinningarnar hlaupa með okkur í gönur.
Lífið er ekki undir þinni stjórn og hugurinn ekki heldur. En hugurinn hlýðir einu – og það er öndunartakturinn – það hversu hratt eða hægt við öndum. Um leið og við hægjum á önduninni þá hægist á huganum. Og líkaminn fer að slaka á.
Við höfum öll þörf fyrir að tengja við óendanleikann innra með okkur annað slagið. Að næra þögnina innra með okkur svo við getum sótt þangað orku þegar við þurfum að takast á við lífið. Sumir gera þetta í gegnum það að hlusta á tónlist, aðrir í gegnum það að fara út að ganga. Hugleiðsla er enn ein leið. Hún hefur þann viðbótarkost að hún hjálpar okkur að hreinsa undirvitundina og gefur okkur virkt samband við hugann. Og það sem meira er – þegar við ræktum þannig hugann í gegnum reglulega íhugun, njótum við þess enn betur að ganga og hlusta á fallega tónlist. Í Kundalini jóga er auk þess hægt að sameina þetta allt. Hugleiðsla í kundalini jóga er nefnilega oft gerð í gegnum söng og sömuleiðis er hægt að hugleiða og ganga á sama tíma – gönguíhugun.
Hugleiðsla hreinsar undirvitundina og áruna okkar. Okkur finnst öllum sjálfsagt að fara reglulega í bað. Það er jafn mikilvægt að hreinsa hugann – annars verður hann ofhlaðinn. Með því að hreinsa undirvitundina reglulega gefum við sjálfum okkur færi á að vinna úr reynslu okkar og takast á við nýjan dag af opnum huga. Hugurinn verður meira skapandi og við förum að geta betur stýrt venjum okkar. Samskiptin við okkar nánustu verða betri og við förum að lifa í stærri og áhugaverðari heimi.
Regluleg hugleiðsla er eins og góður vinur sem nærir okkur og gefur góð ráð. Í hugleiðslu uppgötvar þú heilan heim af þér. Í þeim heimi, í þínu dýpsta eðli er hugurinn þjónn þinn en ekki meistari.
Guðrún Darshan - Andartak jóga- og heilsustöð - gudrun@andartak.is