c

Pistlar:

24. mars 2015 kl. 16:53

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Er þinn hugur ótaminn eða takmarkalaus?

sjore_04092014_mg_7424_pp.jpgÞekkir þú þinn eigin huga? Kanntu að hafa hemil á honum? Veistu að meirihluta fólks skortir virkt og meðvitað samband við eigin huga? Og veistu að ef þú ert ekki með meðvitað samband við hugann þá er það hugurinn sem stjórnar þér - ekki öfugt?

Það þýðir að ef þér gengur illa að glíma við einhverja venju sem er farin að hafa neikvæð áhrif á líf þitt – þá er það hugurinn sem er búinn að taka völdin og þú ert ekki lengur við stjórnvölinn.  Og það veldur því að þú kannski reiðist óvænt – án þess að ætla það –eða þú fyllist af kvíða við ákveðnar aðstæður – eða kannski finnst þér lífið erfitt og alvörugefið. Þá er það reiðigusan, kvíðahnúturinn eða alvarleiki lífsins sem velja þig. Það ert ekki þú sem velur heldur hugurinn.

Hugleiðsla kennir okkur að byggja upp virkt samband við hugann. Og þá getum við farið að velja meira hvernig okkur líður, við hvað hugurinn dvelur og við getum farið að velja okkar eigin viðbrögð.

Hugurinn er eins og ótaminn hundur sem snuðrar um allt og er alltaf forvitinn. Ef við ákveðum að eignast hund þá þurfum við að þjálfa hann ef við eigum ekki að sitja uppi með hömlulausan hund sem geltir á allt og alla, Á sama hátt þurfum við að læra að temja hugann okkar ef hann á að geta starfað fyrir okkur á jákvæðan og uppbyggjandi hátt.

Hugurinn er margbrotið og heillandi fyrirbæri. Hann er stærsti fjársjóðurinn sem þú átt og hann býr yfir óendanlegum möguleikum. Ef þú lærir að eiga sterkt samband við hugann þá áttu þar öflugra tæki en þú getur ímyndað þér - og sem getur skapað þér bæði hamingju og velsæld eða bara hvað sem þú vilt.

Undanfarna mánuði höfum við í jóga- og heilsustöðinni Andartak boðið fólki að hugleiða með okkur - heima og eða í Andartaki og styðja þannig þá sem vilja koma sér upp daglegri hugleiðslu.

Nú er að byrja ný fjörutíu daga hugleiðsla hjá okkur og allir velkomnir að taka þátt. Hvort sem þú ert iðkandi í Andartaki eða ekki ertu velkomin-n að koma og hefja hugleiðsluna með okkur og fá leiðbeiningar til að halda áfram.

Guðrún Darshan, jógakennari og hómópati

Jóga- og heilsustöðin Andartak

gudrun@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira