c

Pistlar:

13. október 2015 kl. 18:42

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Dansaðu, lifðu, hlæðu, elskaðu - og slakaðu á.

darshan-tre_769_-c.pngNú er haustið byrjað að feykja okkur eins og laufum í vindi inn í gula og rauða litadýrð – og blauta rigningadaga. Lífið er að komast í fastar skorður aftur eftir langa daga sumarsins. Mér finnst svo stutt síðan ég byrjaði að forrækta grænmeti í eldhúsglugganum mínum og beið eftir vorinu með fiðrildi í maganum. Núna andartaki síðar er ég að borða af allsnægtum jarðarinnar – gulræturnar sem eru svo sætar og ég verð að hafa mig alla við að koma brokkolíinu ofan í fjölskylduna mína áður en það vex úr sér og fer að blómstra. Um leið og ég þakka fyrir alla þessa gnægt – reyni ég að leyfa ekki leiðanum yfir að sumarið skuli vera búið að yfirgnæfa þakklætisröddina. Þakklæti er svo yfirmáta gefandi tilfinning.

Á þessum árstíma er veðrið enn breytilegra en venjulega og meiri þörf á að hlúa vel að okkur svo við stöndum af okkur haustkvef og –flensur - og streitupúkann. Það er líka svo mikilvægt að muna að hlæja og geyma sumarsólina áfram í hjartanu – svo við getum lýst okkur sjálfum í gegnum veturinn.  Ég hef verið að vanda mig alveg sérstaklega við það þetta haustið að láta ekki daglegt amstur og streitu verða of hávær - og að halda í friðinn í hjartanu hvað sem á dynur. Það hefur gengið nokkuð vel hingað til. Og hæfilegt magn af streitu er jú bara af því góða. En ég þarf að vera mjög vakandi. Það er svo auðvelt að fara að trúa því að “þetta bara verði að gerast núna – þrátt fyrir að ég sé þreytt og hafi enga orku í að leysa verkið af hendi”. En þannig hefur streitupúkinn oft náð að plata mig út í tóma vitleysu – og áður en ég veit af er tankurinn tómur og ég hætti að geta sofið vel.

Ég er búin að vera að hugleiða það vandlega í sumar hvað það er sem gefur mér gleði. Hvernig ég missi sambandið við uppsprettuna innra með mér um leið og ég leyfi álaginu og þar með hávaðanum í huganum að komast upp fyrir ákveðinn styrk. Og af því ég kenni jóga þá er ég svo meðvituð um að ég vil vera jákvæð fyrirmynd – og þegar ég er það ekki finnst mér ég ekki alveg vera heil í því sem ég er að gera. Ég finn það svo sterkt hvernig ég verð að vera í sambandi við þorstann eftir sálinni minni til þess að finnast ég vera á lífi. Ég verð að trúa á það sem ég er að gera og gera það af heilu hjarta. Um leið og ég er hálfshugar og nýt þess ekki alveg að vera ég þá dofnar aðeins ljósið innra með mér – og ég fer að missa tengslin við uppsprettuna sem nærir mig.

Þegar tankurinn verður tómur þá getur orðið til vítahringur þar sem ég fer að keyra áfram á adrenalíni í stað lífsorku. Þá fer ég að leita í sykur eða einhvers konar spennu - eitthvað sem gefur mér falska tilfinningu fyrir orku – en sem í raun gengur enn meira á orkutankinn minn. Sumir leita í kaffi og sjónvarp og rifrildi geta líka verið afleiðingin þegar tankurinn verður tómur. Í jóga lærum við að hlaða batteríin í gegnum öndunaræfingar, jóga, djúpa slökun og hugleiðslu.

Kundalini jóga – sem er það form af jóga sem ég stunda og kenni býr yfir miklum fjársjóði af visku sem kennir okkur hvernig við getum lifað og tekist á við álag og haldið orkuflæðinu opnu. Ég þekki ekki neina leið sem virkar jafn hratt og kröftuglega og kundalini jóga. Galdurinn liggur í að opna kistuna og láta hana ekki bara liggja þarna ónýtta. Hver sem þín fjársjóðskista er – skora ég á þig að hafa hana áfram opna.

Guðrún Arnalds - Darshan  / gudrun@andartak.is

Jóga- og heilsustöðin Andartak

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira