Jóga og ayurveda eru systurvísindi - bæði upprunnin frá Indlandi og hafa þrátt fyrir háan aldur náð að afla sér mikilla vinsælda á vesturlöndum.
Jóga er leið til að tengja við birtuna innra með okkur og gefa henni rými. Nokkuð sem er mjög mikilvægt og dýrmætt einmitt núna í skammdeginu. Jóga gefur okkur verkfæri til þess að hlúa að okkur sjálfum og efla innri styrk.
Kundalini jóga getur stutt okkur í því að velja það sem nærir okkur í stað þess að leyfa huganum að ráða. Það getur hjálpað iðkendum að umbreyta neikvæðum hugsunum og mynstrum sem hindra þá í lífinu og koma sér upp heilbrigðari venjum og hugmyndum um sjálfa sig.
Ayurveda byggir á heildrænni sýn á manneskjuna og náttúruna og sýnir okkur hvernig maður og náttúra eru fléttuð saman í eina heild. Samkvæmt vísindum ayurveda eru frumöflin fimm – jörð, vatn, eldur, loft og ljósvaki (eter) til staðar í okkur öllum. Eldurinn sem brennur innan í jörðinni er lika í maganum á okkur, jörðin sem veitir líf er líka hluti af okkur, loftið umhverfis okkur er líka innra með okkur. Þessi fimm frumefni birtast í okkur í 3 megin orkuformum; VATA, PITTA OG KAFFA.
Vata er til sem allt loftið sem við geymum í tómum rýmum í líkamanum. Vata gefur okkur hreyfingu og jafnvægi bæði á huga, líkama og tilfinningar, aðlögunarhæfni, sköpun, áhuga og skilning.
Pitta þýðir kraftur meltingarinnar eða hitans – það sem fær hluti til að þroskast og meltast. Pitta hjálpar okkur að melta bæði mat, hugmyndir og tilfinningar og gefur okkur gáfur, hugrekki og lífsorku.
Kaffa er það sem fær hluti til að loða saman og er líkamlegt ílát fyrir pitta og vata eða orku og hita. Kaffa gefur okkur tilfinningu og tilfinningar, ást og umhyggju og tengir okkur við aðra. Kaffa hjálpar okkur að halda í það sem við höfum eignast eða framkvæmt.
Hver manneskja er með sitt persónulega jafnvægi milli VATA, PITTA OG KAFFA. Það sem við borðum, drekkum, hugsum, hvernig daglegur taktur okkar er; allt þetta og margt fleira hefur áhrif á þetta jafnvægi. Með því að læra að þekkja grunnlíkamsgerð okkar og hvað við þurfum að gera til að halda jafnvægi getum við sjálf skapað okkur heilbrigðan líkama og hamingjusama sál.
Jafnvægi: Við erum eins og þrífótur – líkami, hugur og sál. Í vestrænum lækningum erum við með mismunandi lækna fyrir hvern líkamshluta. Hjartalæknirinn spyr okkur um kólesteról – ekki ástarmálin okkar. Ayurvedalæknirinn meðhöndlar alltaf heildina og sjúkdómsgreiningin er alltaf sú sama: “Ójafnvægi”. Það eru tvær megin ástæður fyrir ójafnvægi; ytri aðstæður –árstíðarbreytingar, mengun, sýking. Innri aðstæður – streita, tilfinningaójafnvægi, ójafnvægi í meltingu. Ytri aðstæður hafa ekki eins mikil áhrif ef við pössum upp á innri aðstæður.
Janúar er góður tími til að hlúa að þvi sem við höfum og skapa okkur nýja framtíð. Til þess að taka á móti nýjum venjum þurfum við að sleppa þeim gömlu sem oft getur verið átak. Ef við sjáum fyrir okkur að við séum að skuldbinda okkur til að sinna okkar eigin vellíðan, hamingju og tilgangi í lífinu þá verður það mun auðveldara en að hugsa um það sem okkur finnst neikvætt og þarfnast breytinga. Ef við viljum njóta lífsins í krefjandi heimi nútímans er gagnlegt að horfa heildrænt á okkur sjálf og finna leiðir sem styrkja okkur í heild - ekki bara einstaka parta.
Guðrún Arnalds - Darshan - gudrun@andartak.is