c

Pistlar:

30. mars 2016 kl. 14:33

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Vorleysingar á huga og líkama

sjore_04092014_mg_7729_pp.jpgÞó vetur konungur sé enn ekki farinn að gefa okkur mjög skýr merki um að hann ætli að fara að láta af völdum þá vitum við samt í hjarta okkar að vorið er á næsta leiti.  Bjartir morgnar eru mjög kærkomnir eftir allt myrkrið og innan um snjóbreiðurnar má sjá í grænt gras sem heldur sjálfsagt að það sé að villast þegar það lítur í kringum sig. Sumir aðkomurunnar eru jafnvel farnir að bruma þó heimavönu birkinu finnist það sjálfsagt mjög glannalegt og óviturlegt.

En á meðan getum við að minnsta kosti farið í gönguferðir, hlustað eftir nýjum fuglahljóðum og látið okkur dreyma um vorið og sumarið. Þegar vorið bræðir veturinn nærumst við á birtunni og græna litnum - stundum fáum við ofbirtu í augun til að byrja með.

Þó við flest okkar tökum vorinu fagnandi þá getur verið átak að hrista af sér vetrardoðann og margir eiga erfitt með að taka á móti vorinu af sama krafti og hugurinn myndi óska sér.  Það er ekki óalgengt að fólk fái kvef og alls kyns ofnæmiseinkenni á vorin og þunglyndi tekur stundum aukadýfu einmitt á vorin þegar síst varir.

Mér fannst það mjög gagnlegt þegar ég kynntist heildrænni visku jógafræðanna að heyra að þetta ætti sér eðlilegar skýringar.  Jóga og systurvísindi þeirra – ayurveda kenna okkur um mikilvægi þess að lifa í takti við okkur sjálf og árstíðirnar og hlusta á líkama, huga og sál. Þau fjalla um það hvernig veturinn getur safnast upp innra með okkur. Vetrinum fylgir kuldi og raki og við speglum þessa eiginleika innra með okkur. Við höfum tilhneigingu til að borða og sofa meira, sitja inni og búa okkur þannig til vetrarkápu til að einangra okkur gegn kuldanum. Á vorin þurfum við að varpa af okkur þessari kápu. Annars eigum við það á hættu að fá vorkvef og frjókornaofnæmi – eða við gætum fundið fyrir framtaksleysi og tilfinningaþyngslum.  Vetrinum fylgir ákveðinn drungi, dofi gagnvart lífinu og það geta myndast stíflur innra með okkur. Eins og í vorleysingum getur allt farið að losna þegar vorið birtist og stöku klakar geta strandað á steini úti í miðri á áður en þeir bráðna. Orkuflæðið okkar getur farið skrykkjótt af stað og drunginn getur verið búinn að koma sér þægilega fyrir og verið tregur að standa á fætur.

Á vorin þurfum við að hugsa sérstaklega vel um flæðið innra með okkur. Þegar við erum í jafnvægi finnum við styrk okkar og stöðugleika.  Skortur á innra jafnvægi á vorin lýsir sér oft í því að við erum syfjuð eða með sljóan huga og jafnvel þunglynd. Það gæti líka fylgt því aukið slím í lungum eða kinnholum, ógleði og vatnssöfnun eða þungi í útlimum.  Þeir sem þekkja til ayurveda kannast kannski við að þetta er lýsing á of miklu kaffa.

Í ayurveda er meðalið ekki bara eitthvað sem þú tekur inn heldur líka lífsstíll og taktur í deginum. Meðalið eða mótvægið fyrir vorið er þá að búa sér til takt og rútínu fyrir daginn sem hjálpar okkur að létta okkur líkamlega og tilfinningalega án þess að trufla stöðugleikann innra með okkur. Best er að nálgast þetta frá mörgum hliðum; borða létt fæði, hreyfa sig – fara út í náttúruna. Jóga er mjög gagnlegt á þessum tíma og þá ekki síst öndunaræfingar og hugleiðsla. Í kundalini jóga er fullt af kríum sem hreyfa við orkunni og opna fyrir orkuflæðið.

Daglegar reglubundnar venjur eru nauðsynlegar til að halda góðri heilsu og til að okkur líði vel. Þær hjálpa okkur að lifa í takti við innbyggða líkamsklukku okkar og við náttúruna og að hlusta á okkur sjálf. Daglegar venjur gefa okkur sjálfstraust, sjálfsaga, innri frið, hamingju og langt líf.

Það er til dæmis himneskt að byrja daginn á að nudda líkamann upp úr olíu og fara svo í sturtu. Morgunganga eða örstutt jóga gefur okkur færi á að opna hugann fyrir nýjum degi og þeim tækifærum sem hann færir okkur. Og stutt hugleiðsla á eftir. Þriggja mínútna hugleiðsla hefur ótrúlega mikil áhrif ef hún er gerð daglega.

Létt  hreinsun er af hinu góða. Og ekki síður að sleppa öllu þessu sem íþyngir okkur – eins og gömul ágreiningsmál við aðra, sorgir sem við eigum eftir að vinna úr eða fyrirgefning sem bíður eftir að koma fram í dagsbirtuna. Við höfum tilhneigingu til að halda í gamlar sögur, oft erfiðu sögurnar okkar - að segja þær aftur og aftur – og þannig halda þær áfram að lifa. Á þennan hátt erum við jafnvel að endurskapa þær. Það er mikill léttir að sleppa gömlum höftum.

Vorið er tími til að fæðast upp á nýtt og njóta þess að sjá lífið vakna í kringum okkur. Tími til að sá fræjum og skjóta rótum svo við getum nærst í gegnum sumarið og haldið stöðugleika okkar. Þetta er upplagður tími til að hreinsa líkamann og sleppa því sem við þurfum ekki á að halda lengur og koma okkur upp nýjum siðum sem þjóna okkur og næra.

Jákvæð hlið vorsins er kærleikur, samkennd og breytingar – sem geta leitt af sér djúpa umbreytingu. Við getum notað vorið til að sá nýjum fræjum og tekið meðvitaða ákvörðun um að rækta með okkur gleði, samkennd og þakklæti og opnað þannig fyrir birtunni í hjartanu.

Andartak – jóga og heilsustöð
gudrun@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira