c

Pistlar:

6. desember 2016 kl. 16:50

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Vetrarsólstöður og töfrar hversdagsleikans

Vetrarsólstöður og aðventa eru mjög heillandi tími og líka erfiður fyrir marga. Á þessum tíma fylgjumst við með hvernig myrkrið vex og vex, dagurinn styttist og nóttin lengist, þangað til sólin kemst ekki neðar og getur bara byrjað að rísa á ný. Þannig fæðist ljósið enn og aftur í myrkrinu og sólin fer að hækka á lofti. Nýtt upphaf og ný tækifæri.

Á þessum tíma er sagt að blæjan sem aðskilur hinn veraldlega heim frá heimi andanna og andans verði þynnri en venjulega. Að við eigum greiðari aðgang að ljósinu og myrkrinu sem býr innra með okkur og  undirvitundinni. Draugasögurnar eru ekki bara til í þjóðsögum Jóns Árnasonar. Við erum líka með drauga innra með okkur í formi gamalla viðbragða og afstöðu til lífsins, gamalla hugsana sem þjóna okkur ekki lengur og sjálfsmyndar sem hefur staðnað.

Þessi tími er því tilvalinn til þess að fara inn í myrkrið innra með okkur og finna ljósið, að horfast í augu við skuggana og skúmaskotin í huga okkar og lýsa hann upp með nýrri visku og nýjum áherslum. Að velja hver við viljum vera og næra þann hluta af okkur sem við viljum standa fyrir. Allt sem við veitum athygli vex og dafnar. Við reitum arfann og sáum nýjum fræjum. Til að sleppa því gamla þurfum við að velja og vökva það sem við viljum fá í staðinn.

Í skóla sonar míns er mjög falleg athöfn á hverju ári í byrjun aðventu þar sem öll börnin ganga eitt og eitt í einu inn í miðjan spíral þar sem eitt kerti logar. Þau kveikja á sínu kerti inni í miðjum spíralnum og ganga svo hljóðlega út aftur og leggja kertið frá sér einhvers staðar á leið út úr hringnum. Þannig ganga þau inn í kyrrðina innra með sér og sækja þangað ljósið til að geta komið með það út í heiminn eins og sólin sem birtist á ný.  

Það þarf kjark til að breyta, til að halda áfram að vaxa, til að sleppa því sem við þurfum ekki og opna fyrir nýja hluti. Mikilvægur þáttur í þessu ferli er að sjá fyrir okkur hvernig við viljum hafa lífið, hvað við viljum standa fyrir í þessum heimi, hvaða drauma við viljum sjá rætast. Það getur verið skemmtilegur leikur á aðventu að taka fram liti og blöð og mála árið sem er að líða og nýja árið eða setjast niður í næði og skrifa bréf til stóra sjálfsins síns. Hvaða drauma vilt þú vökva á nýju ári?

Guðrún Arnalds - Darshan - gudrun@andartak.is 

Andartak jóga- og heilsustöð

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira