c

Pistlar:

3. október 2018 kl. 10:57

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Ævintýri hversdagsins

_DSF8678 copyEin af mínum uppáhaldsfyrirmyndum er Lína Langsokkur. Hún kann þá list að að gera hvern dag að ævintýri og finna töfrana sem leynast undir hverjum steini ef vel er að gáð. Mér finnst mjög heillandi að skoða hvað það er sem fær okkur til að lifa lífinu til fulls og á sama tíma að halda jafnvægi. Hamingja er ekki endilega stöðug gleði heldur tengist hún líka hæfileikanum til að njóta þess sem er.

Við lifum á tímum sem einkennast af hraða og miklum breytingum. Það má segja að það sé lífsnauðsynlegt í dag að læra að lifa með álagi og streitu. Þetta er örugglega meginástæðan fyrir vinsældum jóga í dag og sem jógakennari hef ég vissulega kynnst þessari þörf. Eitt af því sem ég hef lært í gegnum jógaiðkun er að hæfileiki okkar til að standast álag vex til muna þegar okkur finnst við vera við stjórn.
 
Við búum í heimi sem að mörgu leiti kennir okkur að hlusta ekki á okkur sjálf, að hamingjuna sé að finna utan við okkur sjálf, að verðleikar okkar séu metnir í frammistöðu á prófum eða í verkefnum lífsins. Líf flestra í dag er komið úr takti við hjartsláttinn, við flæði lækjarins og óendanleika himinsins. Samt erum við að uppgötva meira og meira að þar liggja svörin. Djúpt í rótum okkar sjálfra.
 
Rithöfundurinn og félagsfræðingurinn Bréne Brown orðar þetta þannig: “Við lifum í menningarsamfélagi þar sem ríkir sterk tilfinning fyrir skorti. Við vöknum á morgnana, og við segjum “Ég svaf ekki nóg”. Og við leggjumst á koddann og segjum “ég kom ekki nógu miklu í verk”. Við erum aldrei nægilega grönn, nægilega stórkostleg eða nægilega góð – þangað til við ákveðum að við séum það.”

Ekkert fyrir utan okkur getur gefið okkur þá næringu sem við þurfum mest á að halda. Hún kemur innanfrá. Viska er ekki bara eitthvað sem við vitum og kunnum að segja frá – heldur að gera það sem þarf að gera og sækja orkuna innra með okkur – að kunna að tengja við uppsprettuna hið innra. Það er gjöfin frá þér til þín.

Guðrún Darshan, jógakennari og markþjálfi

Andartak - jóga og heilsa

gudrun@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira