Jóga er ekki bara líkamsrækt. Við getum líka nýtt okkur jóga til að skoða veröldina innra með okkur og heimsækja staði og tilfinningar sem eru ekki alltaf aðgengileg í daglegu lífi. Við höfum undanfarið verið að skoða mjaðmirnar í jógatímunum okkar.
Stundum er sagt að mjaðmirnar geymi okkar viðkvæmustu tilfinningar. Þær sem við erum kannski síst til í að mæta og deila. Þess vegna kallar það á ákveðið hugrekki að setjast inn í mjaðmirnar og hlusta.
Við geymum oft ótta við framtíðina í mjöðmunum. Það að mæta framtíðinni með opinn og óttalausan huga kallar á góða jarðtengingu og samband við okkur sjálf og dýpstu hlutana af okkur sjálfum. Líka við óttann. Ef við reynum að bægja honum frá þá fær hann bara meira vald.
Sambandið okkar við aðra getur endurspeglast í mjöðmunum. Erum við tilbúin að mæta öðru fólki og koma til dyranna eins og við erum klædd eða viljum við fela þá hluta af okkur sem við höldum að þeim geðjist ekki að? Kynorkan okkar er í mjöðmunum. Krafturinn okkar. Erum við tilbúin að hleypa kraftinum okkar út og taka afleiðingunum? Hvaða tilfinningar hindra okkur í því að leyfa kraftinum okkar að flæða fram? Áföll geta setið í mjöðmunum. Meðganga og fæðing hefur djúp áhrif á mjaðmirnar og erfið fæðing getur setið í mjöðmunum.
Mjaðmirnar tengjast sambandinu þínu við aðra - en ekki síður sambandinu við okkur sjálf. Stífar mjaðmir geta bent til þess að við eigum erfitt með að opna okkur gagnvart öðrum og að elska okkur sjálf.
Mjaðmirnar tengjast annarri orkustöðinni. Svadistana. Önnur orkustöðin tengist kynorku, sköpun, gleði og hæfileikanum til þess að njóta og hvíla í núinu. Þegar önnur orkustöðin er stífluð hefur það áhrif á hæfileika okkar til að sleppa og leyfa hlutunum að flæða. Þegar við gerum jógastöður sem opna mjaðmirnar þá höfum við oft tilhneigingu til að spenna á móti og eiga erfitt með að gefa eftir inn í stöðuna. En ef við sýnum mjöðmunum þolinmæði og kærleika þá gefa þær eftir og geta opnað upp fyrir okkur nýjar víddir. Í gegnum það að opna mjaðmirnar getum við skoðað hvar mörkin okkar liggja, við getum skoðað hvaða tilfinningar koma upp og gefið þeim rými. Við getum skoðað hvað er að hindra okkur í að vera til staðar og njóta og við getum opnað stærri dyr inn í núið - inn í það að finna, njóta og vera.
Hvað leynist í þínum mjöðmum?
Jógatímarnir okkar í Bústaðakirkju eru opnir öllum að koma og prófa. Hér er hægt að lesa meira um tímana. Lífsorka, hamingja og hugleiðsla.
Guðrún Darshan, jógakennari, hómópati og markþjálfi
Andartak - jóga- og heilsustöð
gudrun@andartak.is