c

Pistlar:

7. september 2020 kl. 10:07

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Að vera með því sem er. Hugrekki er líka að staldra við og hlusta

Nú er lífið að færast aftur í fastar skorður eftir ævintýri sumarsins. Eins og hægt er miðað við aðstæður. Þetta eru skrýtnir tímar og margt nýtt sem við þurfum að laga okkur að. Við vonum auðvitað öll að heimurinn komist aftur af stað og geti farið að rísa upp úr öldudalnum. Á sama tíma væri óskandi að við gætum fundið leið upp úr dalnum sem fær okkur til að lifa meira í sátt og í takti við náttúruna og aðra jarðarbúa. 

Þegar lífið tekur svona stakkaskiptum eins og undanfarna mánuði þá fáum við um leið það verkefni að skoða hvernig við tökumst á við breytingar. Lífið er alltaf að breytast. Við verðum foreldrar, börnin okkar fara að heiman, við missum okkar nánustu, við missum vinnuna og þurfum að lifa í óvissu um óákveðinn tíma, við eldumst og þurfum að læra að hlusta á það. Í okkar menningu er ekki mikil áhersla á að kenna okkur að takast á við og heiðra breytingar. Að gefa okkur tíma til að syrgja það sem var svo við getum umfaðmað það nýja. Að hlusta á það hvað gerist innra með okkur. Það er mjög verðugt verkefni að þjálfa þennan vöðva og geta tekist á við álag og breytingar af æðruleysi.

Þegar við gefum okkur tíma til að hlusta þá mætum við mismunandi hlutum eða stöðum í okkur sjálfum sem eru allir með sínar þarfir og toga okkur í margar áttir. Þegar allt er að breytast eins og núna getur ótti farið að gera vart við sig. Áhyggjur og kvíði eru form af ótta. Svo er kannski annar hluti sem knýr okkur áfram. Hann gæti verið með langan lista af verkefnum í eftirdragi og vill helst að við klárum þau strax. Enn einn hluti sem við eigum mörg sameiginlegan er innri gagnrýnandinn. Rödd innra með okkur sem er ötul við að rífa okkur niður eða kalla eftir fullkomnun. Sem finnst ekkert vera nógu gott sem við gerum. Þegar við hlustum dýpra getum við farið að eiga samtal við þessa hluta af okkur og gefa þeim rými til að tjá sig á heilbrigðari hátt svo lífið verði litríkara og þessir ýmsu hlutar okkar geti farið að syngja saman og lifa í meiri samhljóm.

Þegar ég hlusta fer ég að taka eftir því hvernig sólin glitrar í skýjunum. Hvernig andardrátturinn býður mér að finna lífið í allri sinni dýpt. Hann býður mér að slaka á öxlunum og faðma það sem er. Líka gagnrýnandann sem vill að eitthvað komist í verk. Og fæturna sem hvíla á jörðinni sem taka á móti stuðningi hennar. Þær segja mér að ég þarf ekki að kreista lífið til að eitthvað gerist. Jörðina sem gefur mér til kynna að ég er velkomin, að það er alltaf eitthvað sem er stöðugt undir fótunum. Líka þegar ég sé bara breytingar í kringum mig. Hún minnir mig á að gefa mér tíma til að næra sjálfa mig. Að hugrekki er ekki bara fólgið í að halda áfram í gegnum erfiðleikana. Hugrekki er líka að staldra við og hlusta.  

Jóga hefur kennt mér að hlusta og finna fyrir lífinu í gegnum storma lífsins. Að vera til staðar fyrir það sem hreyfist innra með mér. Jóga er sérstaklega gagnlegt ef við erum stirð og stíf. Og þegar við eigum erfitt með að slaka á og hægja á okkur. Þegar við gerum jóga í flæði, á hreyfingu með andardrættinum, þá finnum við hvernig við komumst smátt og smátt í meiri takt við okkur sjálf. Við förum að tengja við við einhvern djúpan kjarna í okkur. Í jóga erum við nefnilega ekki að nota líkamann til að komast inn í mismunandi jógastöður heldur að nota jógastöður til að komast inn í líkamann.

Guðrún Darshan jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira