c

Pistlar:

22. september 2020 kl. 10:41

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Að vera nóg

Við erum öll að glíma við streitu á einhverjum sviðum. Einn af streituvöldunum í nútímasamfélagi er stöðug samkeppni. Að finnast við þurfa að standa okkur til að sýna að við séum einhvers virði. Við berum okkur saman við aðra, við það sem virðist vera að ganga vel hjá öðrum og förum að ímynda okkur að við séum ekki nóg. Við eigum það jafnvel til að upphefja okkur á kostnað annarra til að líða betur. Við erum mörg hver gjörn á að hvetja okkur sjálf áfram í lífsbaráttunni með sjálfsgagnrýni. Þessu fylgir að við förum að gera ómannlegar kröfur til okkar sjálfra og rífa okkur niður ef okkur finnst við ekki standa okkur nægilega vel.

Ég á mér innri rödd sem ýtir mér áfram getur verið harðari en nokkur yfirmaður. Oft finnst henni ekkert vera nógu gott sem ég geri. Tvíburasystir innri gagnrýnandans er frú Fullkomin. Hún gefur mér þau skilaboð að fullkomnun sé verðugt markmið, nauðsynlegt til að passa inn. Vandinn er bara sá að fullkomnun er ekki raunhæfur möguleiki og ef ég geng þann stíg þá er ég alein og verð að standa mig án stuðnings. 
 
Þegar ég gef mér tíma til að setjast niður með þessum háværu innri röddum og hlusta, þá fer ég að heyra meira meðvitað hvað þær eru að segja og hvað þær eru ósanngjarnar við mig. Þá á ég líka möguleika á að bjóða þeim að fá sér sæti og taka því rólega. Ég þarf stundum að benda þeim á þetta oft á dag. Þá get ég valið að hlusta á umburðarlyndari raddir innra með mér og allt í einu fær lífið annan lit. Ég get farið að hlusta eftir því sem skiptir máli í andartakinu. 
 
Kærleikur og mildi til sjálfrar mín færir mér friðsælt hjarta í gegnum storma lífsins. Þegar ég vel að elska sjálfa mig með alla þá veikleika og galla sem fylgja því að vera manneskja, þá eru verðlaunin aukið sjálfstraust og innri friður. Ég get sest inn í uppsprettuna í sjálfri mér. Kjarnann sem veit að ég er hluti af stærri heild. Og sem veit að ég er fullkomin alveg eins og ég er.

Guðrún Darshan jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira