Vorið er tími töfra og umbreytinga. Náttúran kemur úr klakaböndum og köldum raka vetrarins og inn í vorið. Lífspúlsinn tekur kipp, jörðin fer að hlýna og grænir sprotar taka að teygja sig upp á móti ljósinu.
Náttúran virðist eiga svo auðvelt með þetta en fyrir okkur manneskjurnar er það oft ekki eins áreynslulaust að taka á móti nýjum árstíðum. Ferðalagið úr vetri yfir í vor getur tekið sérstaklega á. Oft finnum við fyrir þunga og drunga eins og úrillur björn sem kemur hikandi út úr vetrarhýðinu.
Jóga og ayurveda, systurvísindi jógafræðanna og elsta heilunarkerfi heimsins, sýna okkur að lykillinn að því að halda í taktinn við náttúruna er að fylgja hennar fordæmi og dansa í sama takti. Hér eru nokkur góð ráð úr viskubrunni ayurveda og jóga.
Taktu daginn snemma. Eitt það besta sem við getum gert fyrir okkur sjálf á vorin er að vakna snemma og taka inn létta og tæra orku morgunsins. Og byrja þannig að létta á þunga og drunga vetrarins.
Fáðu hreyfingu á orkuflæðið. Hressandi gönguferð, sundsprettur eða kraftmikið jóga kemur orkunni í farveg. Góður tími til að hreyfa sig er milli 6 og 10 á morgnana og kvöldin. Öndunaræfingar eru eitt það besta sem við getum gert til að vekja lífsorkuna. Og til að losa um staðnað orkuflæði og slím úr lungunum.
Borðaðu létt. Á veturna sækjum við í að borða fæðu sem vegur upp á móti þurrum og léttum eiginleikum kuldans. Á vorin þurfum við að létta fæðið og gefa meltingunni rými til að virkja krafta sína. Grænt og ferskt er málið. Og létt grjón eins og kínóa, bygg og hirsi. Í jóga tölum við um að tendra meltingareldinn. Hann getur verið sérstaklega viðkvæmur á vorin og haustin og mikilvægt að hlúa að honum og gefa honum frí inn á milli.
Sæktu innblástur í náttúruna. Náttúran er svo góður kennari. Við getum lært mikið af því að fylgjast með henni vakna úr dvala. Vorið er upplagður tími til að að leita inn á við og gefa rými fyrir ný fræ, nýjar venjur, nýjar hugmyndir og endurnærandi stundir. Og til að fara út og horfa á brumið vakna á trjánum og litina fjölga sér í umhverfinu.
Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.
andartak@andartak.is