Kannastu við að ákvörðun sem gæti hafa virst vera sú besta sem þú hefur nokkru sinni tekið gæti 15 mínútum seinna virst vera sú versta? Ef þú kannast við þetta gæti hugsast að þú sért að taka ákvörðun í gegn um jákvæða eða neikvæða hugann og átt eftir að bera þær undir hlutlausa hugann.
Þrjár hliðar hugans: Kundalini jóga kennir okkur að hugur okkar sé þrískiptur. Í jákvæða-, neikvæða- og hlutlausa hugann.
Neikvæði hugurinn á ekkert skylt við neikvæðni. Hann er stundum kallaður verndarhugurinn. Hann minnir okkur á að hlusta eftir því sem gæti misheppnast eða verið óhollt fyrir okkur. Neikvæði hugurinn sér möguleika á sársauka, stöðnun, óþægindum og óstöðugleika. Neikvæði hugurinn er sá hluti hugans sem er fljótastur að bregðast við. Enda þurfum við alltaf fyrst að meta hættuna í hverjum aðstæðum.
Til dæmis ef þú færð boð um að taka þátt í stóru verkefni, þá fær neikvæði hugurinn þig til að skoða hvort þetta sé of mikið fyrir þig. Og hvort þú þurfir þá ekki að sleppa einhverju öðru. Eða ef þú ert að íhuga að hugleiða daglega gæti hann sagt sem svo: "Ef ég skuldbind mig til að hugleiða daglega og fylgi því síðan ekki eftir þá finnst mér ég vera misheppnuð manneskja."
Jákvæði hugurinn stígur næstur inn og bendir okkur á það sem er jákvætt við aðstæðurnar. Hann sér ekki lífið í hindrunum og vandamálum. Hann sér alls staðar tækfæri, áskoranir og verkefni til að leysa. Jákvæði hugurinn er ekki sterkur sjálfkrafa. Við þurfum að rækta hann og styrkja. Við þurfum að velja að sjá tækifærin.
Hann gæti sagt "já en þetta er svo spennandi verkefni og það gæti opnað fleiri dyr". Ef við höldum áfram með dæmið um daglega hugleiðslu þá gætu hans skilaboð verið: "Ég hef heyrt að það hafi svo jákvæð áhrif að hugleiða daglega. Það færir mér örugglega þá kyrrð og ró sem mig langar að upplifa. Ég get hugleitt í 1000 daga ef ég ákveð að gera það. Ég hlakka til að sjá þær breytingar sem ég á eftir að upplifa."
Jákvæði og neikvæði hugurinn gefa okkur ekki hlutlaust svar heldur eina hlið á málinu. Næsta skref er að leggja það í hendurnar á hlutlausa huganum. Stundum er nóg að taka nokkur djúp andartök eða að hugleiða í þrjár mínútur. Eða að fara í gönguferð í náttúrunni, skrifa eða tala við einhvern sem hlustar með kætleika.
Hlutlausi hugurinn spyr hvort verkefnið færi þig nær kjarnanum þínum. Hvort það sé í takti við gildin þín að taka þetta skref. Í dæminu um daglega hugleiðslu gæti hann sagt: "Ég finn innblástur til að hugleiða daglega í 40 daga. Ég geri mér grein fyrir að það verður upp og niður ferðalag. Ef ég missi úr dag þá ætla ég ekki að túlka það sem mistök heldur halda áfram að velja að hugleiða fyrir mig."
Hlutlausi hugurinn styrkist þegar við hugleiðum daglega. Þannig fáum við smátt og smátt greiðari aðgang að þeirri visku og innsæi sem við búum yfir.
Mér hefur fundist mjög gagnlegt að hafa þessa þrjá huga í augsýn og ráðfæra mig við þá meðvitað. Það hjálpar mér að hlusta dýpra og að taka góðar ákvarðanir. Það er jafn mikilvægt að kunna að segja nei og að geta sagt já í fullri bjartsýni. Og síðan að leggjast undir feld og sofa á ákvörðuninni.
Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.
andartak@andartak.is