Lífsorkan þín er undirstaðan að heilun og jafnvægi líkama og hugar. Við þurfum að fylla reglulega á tankinn til að hún næri veruna sem erum við sjálf. Eins og með batteríið á símanum þurfum við líka að hlaða okkar eigið orkubatterí og hleypa orkunni út reglulega. Við gerum þetta meðal annars í gegn um öndun, hreyfingu, svefn, hlátur og nærandi samveru.
En með tímanum fer hleðslan á batteríinu okkar úr jafnvægi. Það getur verið vegna þess að við höfum gefið of mikið frá okkur án þess að hlaða á milli og við erum komin í þurrð. Eða við erum orðin ofhlaðin. Til dæmis ef við höfum tekið inn of mikið af upplýsingum eða við höfum staðið frammi fyrir aðstæðum í lífinu og eða tilfinningum sem við höfum ekki náð að vinna úr. Eða við höfum hreinlega borðað of mikið af mat sem hentar okkur ekki eða setið of lengi kyrr. Og við höfum ekki gefið okkur rými til að losa um orku og fá útrás fyrir hana. Áföll og langvarandi álag hafa slævandi áhrif á lífsorkuna svo hún lokast inni á ákveðnum stöðum og verður óaðgengileg.
Ein leið til að skoða og skilja orkuflæðið okkar er í gegn um orkustöðvarnar. Þær eru eins konar kort sem getur gefið okkur upplýsingar og leiðarvísi að því að finna jafnvægi.
Kundalini jóga er mjög heildrænt form af jóga og hefur bein áhrif á orkustöðvarnar og á alla okkar líðan. Eitt af því sem gerir kundalini jóga svona áhrifaríkt eru kraftmiklar og nærandi öndunaræfingar sem styðja líkamann í að hlaða lífsorkuna á öllum sviðum og hleypa henni í réttan farveg. Hugleiðsla er líka mikilvægur partur af kundalini jógatíma. Regluleg hugleiðsla tengir okkur við óendanlega orkuuppsprettu innra með okkur sjálfum. Árangurinn er aukinn lífskraftur og friðsæld, meiri skilningur á okkur sjálfum og öðrum og nýjar leiðir til að lifa lífinu lifandi.
Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld
andartak@andartak.is