c

Pistlar:

30. ágúst 2022 kl. 8:00

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Regnbogabrúin milli himins og jarðar

"Jógaheimspekin kennir okkur að snákagyðjan Kundalini standi fyrir þróun lífsorkunnar innra með hverri manneskju. Hún vaknar af svefni sínum í jörðinni til að dansa sér leið í gegn um hverja orkustöð og endurreisa regnbogann sem yfirnáttúrulega brú milli efnis og vitundar." (Anodea Judith)

Allt jóga miðar að því að vekja Kundalini orkuna sem annars liggur í dvala við rætur hryggjarins. Kundalini er vitundin okkar, tengingin við sálina. Við getum sagt að hún sé "lifandi brunnur hins andlega seims", uppsprettan sem nærir okkur og lýsir okkur leið. Andleg vakning er ekki endilega eitthvað sem við getum valið eða stýrt. Við getum búið til góðar og öruggar aðstæður fyrir hana með því að skapa jafnvægi og opna flæði lífsorkunnar um líkama og huga og tengingu okkar við andann. Á leiðinni getum við notið viskunnar sem fylgir því að fara inn á við og vera í nærveru okkar sjálfra. Í nærveru stóra og stöðuga sjálfsins sem býr innra með okkur.

Flestir fara í jóga til að kyrra hugann og finna friðsæld. Og til að styrkja og koma jafnvægi á líkamann. Andleg vakning er eitthvað sem ekki margir hafa tíma fyrir í dag. En hún er vissulega bónus sem getur fylgt með. Hún getur komið á margs konar formi en hjá flestum fylgir henni tilfinning fyrir að tilheyra einhverju stærra, aukinn friður og jafnaðargeð í gegn um átök lífsins. Og endurheimtur hæfileiki til að njóta þess sem er. Við vitum að við erum í núinu þegar við erum farin að brosa ósjálfrátt og án tilefnis.

Orkustöðvarnar eiga sér samsvörun í vestrænni læknisfræði í innkirtlunum. Líkamlegt svið hverrar orkustöðvar endurspeglast í samsvarandi innkirtli. Um leið og við komum jafnvægi á orkustöðvarnar komum við líka jafnvægi á innkirtlana sem eru stundum kallaðir verndarar heilsunnar. Hljómsveitarstjórar líkamans sem stýra líðan okkar og innra jafnvægi.

Að fara yfir Regnbogabrúna er myndlíking fyrir þróun vitundarinnar.

Við þekkjum söguna um gullið við enda regnbogans, sem stundum er sagður vera tákn fyrir Heilagan kaleik sem geymdi endurnýjun og fyllingu.

Regnboginn er í flestum menningarsamfélögum tákn fyrir von, tenging milli himins og jarðar, tákn um samhljóm og frið. Á tyrknesku merkir orðið regnbogi brú. Í norrænni goðafræði tengir regnbogabrúin Bifröst heim Goða og manna. Á dómsdegi er sagt að Bifröst muni brotna niður og eyða að eilífu tengingunni milli himins og jarðar. Dómsdagur verður þegar Þór nær að drepa Miðgarðsorm, sem hringar sig utan um jörðina. Eins og snákagyðjan Kundalini, liggur hann í dvala í rúmsjó vitundarinnar og bíður færis.

Kundalini orkan er eitthvað sem við nálgumst af varúð og um leið er hún lífsnauðsynleg uppspretta, tær möguleiki sálarinnar. Í kundalini jóga vinnum við í að koma jafnvægi á orkustöðvarnar, innkirtlana og taugakerfið og bæta heilsuna á heildrænan hátt. Árangurinn er aukin lífsorka og friðsæld.

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati, markþjálfi og  leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.  

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira