Hluttekning eða samkennd er hæfileikinn til að sjá hvernig öðrum líður. Að finna til með öðrum og vera til staðar fyrir fólkið í kring um okkur. Ólíkt vorkunnsemi sem er örlítið dæmandi þá er samkennd ekki með fordóma. Moshim Hamid rithöfundur, orðaði það svona: "Hluttekning er að finna bergmál af annarri manneskju í sér." Til að finna sanna hluttekningu þurfum við að rækta með okkur hæfileikann til þess að mæta öðrum þar sem þeir eru.
Þegar við sýnum samkennd hefur það jákvæð áhrif, ekki bara á fólkið í kring um okkur heldur hefur það djúp áhrif á okkur sjálf. Rannsóknir sýna að samkennd getur bætt sambönd og að hún styrkir sömuleiðis sköpunarkraftinn, almenna heilsu og vellíðan. Rannsóknir sýna líka að minnkuð samkennd stafar oft af þáttum sem draga úr mannlegum samskiptum. Til dæmis tækjanotkun.
Það er beint samband á milli streitu og hæfileika okkar til að sýna samkennd. Þau svæði í heilanum sem stýra streituviðbrögðum hafa líka að gera með samkennd og tengsl. Streita gerir okkur erfitt fyrir að hugsa skýrt og bregðast við hlýlega. Mikil streita lokar þróaðri svæðum í heilanum. Krónísk streita breytir í raun líkamsstarfsemi okkar og er rót ýmissa sjúkdóma. Þeim mun meira sem streitan eykst, því meira dregur úr hæfileika okkar til þess að sýna samkennd og að vera skapandi.
Þegar við iðkum jóga erum við að efla hæfileikann til að vera tengd okkur sjálfum og þar af leiðandi getum við átt dýpri tengingu við aðra.
"Hluttekning er að koma þessum mikilvægu skilaboðum til skila. Þú ert ekki ein / einn." Brene Brown.
Það hversu mikla samkennd við sýnum öðrum er yfirleitt nátengt því hversu vel okkur gengur að sýna okkur sjálfum samkennd og mildi. Sjálfsgagnrýni er oft mjög falin og ómeðvituð. Það er svo mikilvægt að minna okkur sjálf á að við erum ekki ein. Og að við erum ekki ein um að líða svona eins og okkur líður. Að við getum leitað stuðnings hjá öðrum. Að við þurfum ekki að vera fullkomin til þess að vera elskuð og meðtekin. Við gerum oft mun meiri kröfur til okkar sjálfra en til annarra. Sjálfsmildi er dýrmætur eiginleiki sem nýtist bæði okkur sjálfum og öðrum. Hvernig gengur þér að hafa þolinmæði gagnvart þér þegar álagið eykst? Að taka eftir þegar innri gagnrýnandinn tekur yfir? Og að hafa samkennd með þér þegar erfiðar tilfinningar skjóta upp kollinum?
Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld
andartak@andartak.is