c

Pistlar:

4. nóvember 2022 kl. 9:39

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Styrkur þagnarinnar

Þögn á sér marga liti og tóna. Stundum er þögnin þrúgandi og stundum spyrjandi. Stundum er hún full af innra skvaldri, og öðrum stundum fylgir henni einmanatilfinning. En þögnin getur líka verið djúp og full af kyrrð. 

Við getum styrkt kyrrðina innra með okkur eins og við styrkjum vöðva. Samskipti okkar við aðra verða mun ánægjulegri þegar við ræktum þessa kyrrð sem er okkur í raun eðlislæg. Í okkar háværa heimi er það bæði erfiðara en líka nauðsynlegra en nokkru sinni að eiga aðgang að djúpri alltumlykjandi þögn. 
 
Í kundalini jóga lærum við að rækta með okkur innri stöðugleika, vellíðan og kyrrð í gegnum það að hreyfa okkur í takti við öndunina þangað til hugurinn hefur hægt á sér. Þá getum við farið að njóta þess að vera með okkur sjálfum.
 
Hugleiðsla eftir jóga hjálpar okkur að finna þessa djúpu þögn sem nærir okkur og verndar fyrir neikvæðni hugans og utanaðkomandi áreiti. Hún gerir okkur kleyft að hreinsa undirvitundina svo við getum sleppt því sem við höfum ekki náð að vinna úr í lífinu. Hvort sem er af völdum áfalla eða álags. Hugurinn verður meira skapandi og við förum að geta betur stýrt venjum okkar. 
 
Við þurfum ekki að vera liðug eða sérstaklega þolinmóð til þess að njóta  þess að fara í jóga. En árangurinn er sátt og vellíðan,  aukinn styrkur bæði hið ytra og innra.  

Þegar ég baða mig í þögninni verður hugurinn móttækilegri fyrir fegurð og gleði. Lífið verður áhugaverðara, veröldin stækkar og það birtir til.  

Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira