c

Pistlar:

7. nóvember 2022 kl. 20:30

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Naflinn og rætur lífsorkunnar

Þegar haustar og laufin eru fallin af trjánum verður það svo sýnilegt að lífsorka trésins býr ekki í laufum þess. Trén eiga sér heilan heim sem við sjáum ekki. Það er sagt að heilbrigði trés endurspeglist í rótarkerfi þess. 
 
Í hávaða heimsins og hraða tímans virðast flestir vera að glíma við einhvers konar þreytu eða streitueinkenni. Og fylgifiska á borð við einbeitingarskort, óþolinmæði og skort á gleði. Lífsorka er held ég það sem við þráum mest að finna meira af.
 
Jógafræðin kenna okkur að lífsorka mannsins búi í naflanum. Naflinn er þungamiðja líkamans, miðja vegu milli hvirfils og ilja. Þegar við tengjum við naflann þá fáum við líka samband við kjarnann í okkur sjálfum, visku sem leiðbeinir okkur. 
 
Þessi miðja líkamans á sér ýmis heiti. Í austrænum bardagalistum er talað um Tanden eða Hara sem merkir hafsjór af orku. Megingjörð, belti Þórs gaf honum yfirnáttúrulegan styrk. Í jóga tölum við um naflann eða naflapunktinn. Allar orkubrautir líkamans liggja þarna í gegn. Gott jafnvægi í naflanum hefur áhrif á allt orkuflæði líkamans og heilbrigði bæði í huga og hjarta. Þegar við setjumst inn í miðjuna fáum við rými frá flækjum hugans og hjartans og getum hvílt í okkur sjálfum. 
 
Barn í móðurkviði fær lífsorkuna frá móðurinni í gegn um naflann. Naflinn er það fyrsta sem þroskast hjá fóstrinu. Eftir það þróast hjartað og síðar heilinn. Naflinn er því eins konar kjarni. Miðpunktur sem allur líkaminn vex upp frá. Naflinn er ræturnar og önnur líkamskerfi verða að stofnum og greinum trésins. Ef við viljum finna kyrrð er gott að setjast við rætur trésins, við rætur okkar sjálfra. 

Auk þess að vera uppspretta lífsorkunnar er sagt að naflinn geti vísað okkur á sálina. Indverski kennarinn Osho, segir um naflann: „Mikilvægasta svæðið í líkama mannsins er naflinn. Blóm þekkingar blómstra í heilanum. Blóm kærleikans blómstra í hjartanu. Það eru þessi blóm sem ginna okkur og fá okkur til að halda að þau séu allt. En rætur mannslíkamans og lífsorka eru í naflanum. Þar blómstra engin blóm. Ræturnar eru ósýnilegar. Naflinn er hins vegar eina hliðið sem vísar að sálinni“.
 
Osho heldur áfram: „Menntun barna snýr að mestu að heilanum frá upphafi skólagöngu. Það er hvergi í heiminum boðið upp á menntun um naflann. Öll menntun snýst um heilann því blómin blómstra þar, svo hann verður stærri og stærri. Og rætur okkar halda áfram að minnka. Lífsorkan flæðir því af sífellt veikari mætti og sambandið við sálina verður veikt". 

Þegar ég sest við rætur trésins innra með mér skynja ég djúpa kyrrð. Þögn sem er á hreyfingu. Tón sem ómar á bak við allt sem er. Þessi ómandi kyrrð er þarna alltaf. Líka þegar ég tek ekki eftir henni. Líka þegar ég er týnd í hraða nútímans. Eftirá kem ég til baka endurnærð og í traustara sambandi við veruna í mér. 

Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira