c

Pistlar:

15. nóvember 2022 kl. 10:45

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Að kveikja ljósið í skammdeginu

Skammdegið er skollið á. Það er misjafnt hversu vel það fer í okkur. Flestir finna fyrir einhverjum breytingum á líðan eftir árstíðum. Þegar dagarnir styttast og skuggarnir lengjast getur verið átak að kveikja bjartsýnisneistann á morgnana. Þá er dýrmætt að eiga aðgang að leiðum til að nálgast ljósið innra með okkur. 

Rannsóknir sýna að myrkrið getur skapað ójafnvægi í starfsemi hormóna og þá sérstaklega þeim sem tengjast svefni og upplifun á gleði. Samkvæmt Ayurveda, systurvísindum jógafræðanna er haustið tími sem við þurfum að vinna í að jarðtengja okkur, finna takt í tilverunni og kyrra og næra hugann.

Jóga býr yfir ótal verkfærum þegar kemur að því að takast á við skammdegið. Við komum jafnvægi á innri kerfi líkamans og finnum lífsorkunni farveg. Í kundalini jóga leggjum við sérstaka áherslu á innkirtlakerfið og hormónana með taktföstum hreyfingum í takti við andardráttinn og með öndunaræfingum sem endurnæra og slaka.

Einn vinur minn og jógi segir að til að lifa í takti við okkar sanna eðli, þurfum við að vera með klókan nafla, opið hjarta og tómt höfuð. Það getur svo sannarlega verið gott að geta tæmt hugann og fyllt hjartað, eins og gerist til dæmis þegar við fáum gott hláturskast. 

Í jóga og hugleiðslu erum við í raun ekki beinlínis að að tæma hugann heldur má kannski segja að við séum að beina huganum úr því að vera eins og óreglulegur vindur eða geysandi stormur af hugsunum, eins og gerist þegar við verðum stressuð, yfir í að vera eins og hjalandi lækur eða niðandi fljót.

Klókur nafli vísar til þess að við séum með vakandi samband við visku naflans. Naflinn er miðja líkamans. Kjarninn okkar. Allar orkubrautir líkamans liggja í gegn um naflann. Þegar orkubrautirnar opnast  kemur það fram í líkamlegu og andlegu jafnvægi og við finnum aukna gleði og vellíðan. Í jóga erum við því að veita lífsorkunni og huganum í farveg þar sem þau geta flætt mjúklega.

Í skammdeginu er sérstaklega mikilvægt að hlúa vel að okkur sjálfum. Mér finnst það hjálpa mér ef ég passa að grípa birtuna þegar hún gefst og fara í góðan göngutúr. Mér finnst líka mikilvægt að hafa eitthvað til að hlakka til og að njóta samvista við þá sem mér þykir vænt um. Að tendra ljósið í sjálfri mér og halda neistanum vakandi. Bæði í samskiptum við aðra og ekki síst við sjálfa mig.

 

Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira