c

Pistlar:

28. apríl 2014 kl. 18:54

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Æskudraumur rætist

41lenrr2jsl_aa160.jpg

Þegar ég var krakki voru ekki margar reglur en þær reglur sem voru var eins gott að virða. Ein af þeim var að vera til friðs þegar pabbi horfði á sjónvarpsfréttirnar. Þetta var helg stund og ekkert mátti raska ró hans. Mér gekk ágætlega að halda þessa reglu allt fram að því að Stöð 2 hóf göngu sína og fór að keppa við sjónvarpsfréttirnar með einhverju sem höfðaði frekar til mín.

Uppáhalds þátturinn var Beverly Hills 902010. Hvernig er líka annað hægt en að halda upp á þessa þætti? Þeir voru á dagskrá ef ég man rétt á miðvikudags kvöldum, á sama tíma og fréttirnar á RÚV auðvitað. Það var ómögulegt að semja við pabba um að sleppa fréttum og leyfa mér að horfa. Sama hvað ég suðaði og tuðaði, pabbi bara gaf sig ekki.

Svo datt ég í lukkupottinn. Stóri bróðir fékk bílpróf og fór að vinna fyrir sér sem pizzasendill á kvöldin. Hann var með sjónvarp í sínu herbergi og pizzuafganga sem hann tók með sér heim úr vinnunni á kvöldin. Þau voru ófá kvöldin sem ég sat í rúminu hans, horfði á BVH 902010 og hakkaði í mig gamla pizzu. Eini gallinn á gjöf Njarðar var áleggið sem hann valdi sér á pizzuna á þeim tíma. Hann borðaði alltaf pizzu með pepperoní, lauk og grænum pipar. Það var mikil nákvæmnisvinna að plokka piparinn og laukinn af og stundum bar græðgin mig ofurliði og ég lét mig hafa það að bryðja piparinn. Bestu kvöldin voru þau þegar það voru nammiafgangar til viðbótar við pizzuna í herberginu.

Þetta voru dýrmætar stundir 11 ára gamallar stúlku. Ég lærði óteljandi hluti, ekki bara um ástina og unglingaveikina heldur um alkahólisma, fátækt, kynferðislegt ofbeldi, átröskun, svik, framhjáhöld, námsdugnað og svo margt fleira. Ég lærði líka ýmislegt um bróðir minn með því að gramsa í herberginu hans á meðan ég borðaði pizzuna. (Ekki vorkenna honum, hann las dagbækurnar mínar af miklum móð þrátt fyrir að þær væru læstar með lykli.)

Um helgina gerðist svo svolítið dásamlegt. Við skruppum í ægilega fína verslunarmiðstöð hérna sem heitir The Grove og eyddum dágóðum tíma í Barnes & Noble (mamma og pabbi eru í páskaheimsókn hjá okkur og urðu að sjálfsögðu að komast í bókabúð). Á leið niður úr barnadeildinni bendir eiginmaðurinn mér á risavaxið skilti. Á skiltinu var verið að auglýsa viðburð sem ég get ekki látið framhjá mér fara. 14. maí næstkomandi verður Jason Priestle í búðinni og áritar nýútkomna ævisögu sína.

Þeir sem ekki horfðu á þættina vita auðvitað ekkert hvað ég er að tala um. Jason lék Brandon. Hann og tvíburasystir hans Brenda voru aðalsöguhetjurnar í þáttunum svo og vinir þeirra, Steve, Kelly, Donna, David, Dylan og Andrea. Brandon var góði strákurinn og andstæða hans, Dylan, leikinn af Luke Perry, alkahólísku vinurinn með alvarlegt "bad boy syndrome". Ég elskaði þá til skiptist. Og þann 14. maí hitti ég Jason. Ég veit ekki hvað mun fara okkur á milli en ef það líkist eitthvað unglingsdraumum mínum ætti eiginmaðurinn að vara sig!

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira