Já. Þangað hef ég farið. Allnokkrum sinnum nú þegar. Sumir vita kannski ekki hvar sú paradís er. Hún leynist hér í Ameríkunni og raunar á tveimur stöðum, Flórída og Kaliforníu. Já. Ég er að tala um Disneyland. Þeir þreytast seint starfsmennirnir þar á að minna á að maður er kominn í fyrirheitna landið. Þetta glymur víða í hátölurum og eru orðin sem starfsmenn nota til að bjóða gestina velkomna í sæluna.
Ég leyfi mér að fullyrða að sá sem fann upp þetta slógan hefur ekki heimsótt garðinn með tvö börn í 29 stiga hita. Hann hefur ekki dröslað tveimur börnum á fætur klukkan sex að morgni, hent þeim upp í bíl og keyrt í klukkustund. Það má ekki leggja af stað seinna en korter í sjö til að ná í garðinn við opnun (og ef maður kemur seinna eru biðin yfir 30 mínútur í öll tæki). Hann hefur ekki parkerað bílnum og byrjað ferðina löngu af bílastæðinu yfir í garðinn sjálfann. Ekki hlaupið með hinum öpunum klukkan 08.00, þegar garðurinn opnar, með börnin, kerruna, sólarvörnina og vatnsbirgðirnar að dyrum Elsu og Önnu, í Frozen land. Né hefur hann staðið þar af sér biðina löngu, sem þennan morguninn voru 120 mínútur en stundum allt að 5 klukkustundir, eftir því að hitta tvær konur sem fá borgað fyrir að standa í garðinum í kjólum sem gerðir eru eftir kjólum úr teiknimynd sem börnin þín elska heitar en flest! Þetta eru ekki prinsessurnar sjálfar. Kommon. Þær eru ekki til í raunveruleikanum. En reyndu að segja börnunum þínum það sem hafa séð myndina yfir hundrað sinnum og góla “Let it go” og “Do you want to build a snowman” öllum stundum, jafnvel upp úr svefni. Hann hefur heldur ekki dröslað börnum í gegnum hinn ótæmandi brunn verslana sem leynast í öllum skúmaskotum, sneisafullar af varningi sem barnið þitt ásælist. Né hefur hann heldur borgað 60 dollara fyrir óætan dögurð (brunch) til þess eins að barnið geti hitt Chip og Dale, Mínu Mús og Kaftein Krók. Onei. Það hefur hann ekki gert. Ég er líka algjörlega viss um að hann hafi ekki, úrvinda eftir annasamar klukkustundir í paradís, dröslað úrvinda börnum, kerru, afgangi af nesti, innkaupapokum fullum af rándýrum varningi sem mun að öllum líkindum safna ryki eins og flest af dótinu sem ratað hefur inn á heimilið í von um að börnin hætti að horfa á Frozen og fari að leika sér aftur, í bílinn. Og leiðin til baka virðist mun lengri þó hún hafi verið löng fyrir. Þú kemur í bílinn. Úrvinda. Börnin sofna eftir 10 mínútur í bílnum og sofa restina af leiðinni heim og eru því orðin eldhress þegar svitastorkin og úrvinda þú nærð inn á heimilið. Nei, ég leyfi mér að fullyrða að þessi týpa sem býður okkur velkomin á hamingjusamasta stað í heimi hafi aldrei nokkurn tímann mætt þarna með tvö börn. Mögulega hefur hann komið í garðinn þegar hann er lokaður almenningi og notið þess að dúlla sér í tækjunum, rölta um búðirnar og fá sér kaffibolla.
Þegar ég slekk á kaldhæðninni skal þó viðurkennt að þó að garðurinn kvelji mig stundum meira en gleðji, þá fyllist ég hamingju við að sjá dæturnar í spennufalli og hamingjukasti yfir að hafa hitt ekki eina heldur 5 prinsessur. Einlæg gleðin leyndi sér ekki heldur þegar þær hittu Chip og Dale og hungraðar af hamingju spændu þær upp Mikka Mús pönnukökur með sírópi. Mamman þarf því að slá af töffaraskapnum, hætta að þykjast ekki hafa gaman að þessu og viðurkenna sannleikann eins og hann er lagður á borð. Kannski er Disneyland hamingjusamasti staður á jörðunni gervallri. Dætrum mínum finnst það í það minnsta. Og ef það er eitthvað sem ég hef lært á 5 árum sem ungamamma þá er það að þegar þær eru hamingjusamar þá smellur allt saman og ég fyllist hamingju líka. Heppin erum við og forsjál að hafa keypt okkur árspassa í herlegheitin og því ekki langt að bíða eftir næstu heimsókn í Mekka.