Einhverjir vita að ég er að fylgja 30 daga hreinsunarplaninu hans Davíðs Kristinssonar. Það gengur svona frekar brösuglega framan af. Hér að neðan eru brot úr dagbókarskrifum undirritaðrar sem er nú á degi 8.
Fyrsti dagur hreinsunarinnar. Hann gekk líka svona ljómandi vel. Ég var hóflega geðvond. Sumir myndu segja að ég hefði bara verið jafn geðvond og venjulega (ekki hlusta á þá, þeir ljúga). Ég var full bjartsýni. Skrapp í matarbúð og fyllti fallega matarkörfu af dásamlega fersku grænmeti og ávöxtum og rúllaði þessu öllu heim. Borðaði dýrindis eggjaköku í hádegismat og kjúkling í kvöldmat, sofnaði svo södd og sæl. Reyndar mun fyrr en venjulega þar sem orkubúskapurinn var ekki upp á sitt besta. Ég rétt hafði það af framyfir háttatíma stelpnanna og var söfnuð fljótlega eftir það (Einn þáttur af Orange is the new black). En ég átti von á einhverju svo miklu verra, meiri vanlíðan, hausverk og almennu þunglyndi!
Dagur tvö. Furðu bjartsýn vegna velgengninnar í gær. Hefði átt að vita betur. Harðsperrur alltaf verstar á degi tvö. Þessi dagur er helvíti á jörðu. Ég er brjáluð í skapinu. Dæturnar upplifa það sem veikleikamerki sem þær nýta til að vera extra óþekkar.. Eiginmaðurinn óttast um geðheilsu mína og líf barnanna, svo mjög að hann er heima með þær núna í löngum hádegismat svo ég geti náð mér saman í andlitinu. Held þetta sé sorgarferlið, fimm stigin. Er ekki fyrsta skrefið afneitun? Það var þá í gær. Og næsta skref reiði? Það er klárlega dagurinn í dag, fer ekki á milli mála. Ég man ómögulega hin skrefin en vona að eitt þeirra sé alsæla og súkkulaðikaka með kaffibolla. Hlýtur bara að vera.
Kannski vitið þið ekki í hverju þessi hreinsun felur sig? Hér er bannlistinn minn: KAFFI!!!, sykur, glúten, svínakjöt, mjólkurvara, unnin matvara, áfengi og ég held ekkert meira. Er ekki með bókina við hliðina á mér. Hljómar sanngjarnt og geranlegt segið þið! Já kannski, en ekki fyrir manneskju með sykurpúka á einni öxl og kaffisatan á hinni! Nei. Fyrir þá manneskju er þetta bara brot á mannréttindum, ég sver það!
Ef ég væri ekki í svona vondu skapi væri mér eflaust huggun í því að vita að þetta tekur enda og á morgun mun mér líða mun betur. En í dag er ég bara fúl vegna þess að ég hélt í gær að ég hefði komist hjá þessum óþægindum með því að trappa kaffið svona fallega niður en það var bara allt ein stór svikamylla! Auðvitað á ég að vita að hlutirnir eru alltaf verstir á degi 2. Sjáiði bara harðsperrur. Þær eru óþægilegar á fyrsta degi en epískar daginn eftir.
Svo hjálpar það ekki skapinu mínu að sitja á Starbucks og vera eina manneskjan þar inni sem kemst ekki inn á helv… internetið þar. Allir aðrir eru svona líka stormandi glaðir á Facebook meðan mín síða bara vill ekki uppfæra sig og kvartar undan því að hafa ekkert internet samband! En ég er búin að tengjast skrattans netinu. Það bara gerist ekkert. GARG!!!
Dagar 3-5
Hausverknum hefur létt en reiðin er enn á sínum stað. Afhverju má maður ekki drekka kaffi? Svona í alvöru? ARG! Og afhverju er settur ostur á allt á veitingastöðum? Hvort sem það er salat eða fiskréttur, það er búið að gratínera þetta allt í drasl! Dagur 31 er skipulagður í þaula oft á dag. Hann byrjar á kaffibolla.
Dagur 8
Helgin var erfið. Það er miklu flóknara en ég átti von á að fylgja matarræðinu þegar maður er á flakki, sérstaklega á nýjum stöðum sem maður þekkir ekki til. Salöt eiga yfirleitt að vera í lagi en þau voru flest ef ekki öll með osti sem er bannaður. Og þá eru það dressingarnar sem eru yfirleitt samansettar úr mjólkurvörum eða sykri. Dagarnir á undan fóru að mestu leiti í að sveiflast á milli sorgarstiga 1 og 2, afneitunnar og reiði en nú um helgina komst ég á stig 3 þó enn haldi ég fast í stig 2 einnig. Stig þrjú: Reyna að semja. Ég var eins og Ríkissáttasemjari um helgina. Reyndi í sífellu að selja sjálfri mér hinar eða þessar undankomuleiðir undan þessu 30 daga plani mínu. Finna leiðir til að stytta þetta, mögulegar afsakanir fyrir því afhverju ég ætti að hætta þessu rugli og svo mætti lengi telja. Enda er ég úrvinda eftir helgarfríið. En að öllu gríni slepptu. Helgin var virkilega stór áskorun því við vorum lítið heima og bara að skoða og upplifa nýja hluti í borg englanna. En þetta hafðist. Og upp er runninn mánudagur, dagur 8. Kannski fer þokunni að létta. Ætla að eyða morgninum í að skoða uppskriftabækur í leit að nýjum hugmyndum sem falla að plani. Smá skortur á fjölbreytni hérna megin. Borðaði t.d. steik 3x á 2 dögum um helgina. Hef því lofað sjálfri mér því að borða enga steik í kvöld og koma fisk að í vikunni. Áfram veginn.