Í fyrsta sinn á ævinni er ég að upplifa 4. júlí í Bandaríkjunum. Og það er aldeilis lífsreynsla. Allir hafa séð einhverskonar útgáfu af 4. júlí í gegnum bíómyndirnar og hafði ég því einhverja hugmynd um það út á hvað þetta gengur. En að upplifa þetta á staðnum er engu öðru líkt.
Við tókum forskot á sæluna um síðustu helgi. Þá var sérstök hátíð hér í bæ undir nafninu “Celebrate America” og við fögnuðum Ameríku ákaft það kvöld Dagskráin fól í sér amerísk blue grass bönd sem spiluðu hressilega tónlist meðan fólk kom sér fyrir á risastórum íþróttavelli með nestiskörfur, teppi og strandstóla. Krakkar dönsuðu og einstaka fullorðnir tóku sveiflu og öðru hvoru var gert hlé á tónlistinni. Þá buldi á okkur amerísk kvikmyndarödd sem hafði ekkert andlit en básúnaði yfir allt að við værum þarna samankomin til að fagna Ameríkunni, landi þeirra frjálsu. Frábært að minna á það ef ske kynni að við myndum gleyma okkur sem var þó harla ólíklegt miðað við magn fánanna sem voru þarna í ýmsum myndum svo sem veifum, blöðrum og öðru sprelli.
Þegar myrkrið skall á vorum við beðin um að standa á fætur og syngja þjóðsönginn með hönd á hjarta. Kjánahrollurinn náði hámarki á þeim punkti en á sama tíma var brosið frosið fast á andlitið á mér því mér leið eins og ég væri á setti fyrir kvikmynd, kannski statisti fyrir “all american” senuna og beið spennt eftir bandaríska klappinu sem hefði fullkomnað viðburðinn. (Bandarískt klapp er þegar einn stendur á fætur með táknrænum hætti og byrjar að klappa og smátt og smátt bætast fleiri í hópinn þar til loks allir eru risnir á fætur klappandi, sjá ýmsar bíómyndir) Svo tóku flugeldarnir við. Undirspilið var fyrst þjóðsöngurinn, í þetta sinn af spólu og svo allskonar lög sem fögnuðu Bandaríkjunum, svo sem Living in America. Flugeldarnir voru dásamlegir og oftast í fánalitunum að sjálfsögðu. Ekki annað hægt.
Ég lifði mig svo svakalega inn í stemmninguna að við buðum til 4th of July veislu hjá okkur. Fórum í 99c Store og keyptum ógrynnin öll af skreytingum í fánalitunum. Ég eyddi umtalsverðum tíma á Pinterest í leit að hugmyndum að veitingum í fánalitum. Lendingin var að gera pavlóvu í fánalitunum og ávaxtaspjót í sömu litum fyrir krakkana. En fyrst fórum við í skrúðgöngu með dæturnar. Fyndnari skrúðgöngu held ég að ég hafi ekki séð. Ég átti svolítið erfitt með að skilja hana til að byrja með því að auk fánalitanna sem voru allsráðandi var umtalsvert af Star Wars tilvitnunum og fólk í Star Wars búningum. Þetta fannst mér frekar skringilegt bland en komst síðar að því að þema göngunnar var “May the 4th be with you” en þetta ruglaði alla töluvert í ríminu. Dæturnar léku á alls oddi, stóðu fremst og veifuðu litlum bandarískum fána í gríð og erg því þær komust fljótt að því að því meira sem þær veifuðu, því meira nammi var hent í þær. Seinni partinn var það svo veislan góða. Ég tók á móti gestunum í fánasvuntunni minni með splunkunýtt maní og peddí í stíl. Veislan gerði stormandi lukku en hér voru þó fleiri Evrópubúar en Ameríkumenn. Ég er strax farin að hlakka til 4. á næsta ári, draumurinn er að komast í skrúðgönguna sjálfa, þ.e.a.s. vera meðlimur í henni en ekki áhorfandi. Það hlýtur að takast.
May the 4th be with you all!