c

Pistlar:

23. júlí 2014 kl. 15:56

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Sumarið sem hætti ekki

ve_ur.jpg

Þið hélduð kannski að ég væri orðin birni að bráð. Ekki enn. Ég fer ekki fyrr en á laugardaginn í útileguna. Er enn stödd í siðmenningunni þar sem vandamálin eru af minni gerðinni og internet og sjónvarp ráða ríkjum.

Undanfarnar vikur hefur Facebook síðan mín einkennst mikið af kvarti og kveini vegna veðurs á Fróni. Ekki halda að ég ætli að fordæma slíkt kvart, það á fullan rétt á sér. En það hefur aukið enn á veðurdepurð mína en ég hef ekki þorað að kvarta vegna þess að ég óttast að þið heima skiljið ekki tilfinningar mínar. Nú get ég bara ekki lengur setið á mér og þið verðið bara að þola mér þetta.

So here it goes.

Í 8 heila mánuði hefur sólin skinið á mig á nánast hverjum einasta degi. Ég hef brennt í gegnum óteljandi brúsa af sólarvörn, þjáðst af vatnsskorti og hitaóráði. Á þessum 8 mánuðum hefur einungis rignt 3 sinnum og gróðurinn er síblómstrandi. Jól hafa komið og farið, páskar sömuleiðis, janúar og febrúar einnig. Og nú segja menn að það sé sumar. Ólíkt hinum 6 mánuðunum á undan? Ég er árstíðarvillt og mér líður eins og tíminn standi í stað vegna þess að ekkert breytist. Enn einn fokking sólardagurinn blóta ég á morgnanna þegar ég vakna. Og öfundast út í þá sem tala um látlausa rigningu, kertaljós og kósýheit heima við. Því hver getur setið heilan dag inni hjá sér í góðviðrinu sem er alveg hreint að drepa mig. Er vor eða sumar? Vetur eða haust? Ég bara veit það ekki, þetta lítur allt eins út hérna megin!

groucho.jpg

Fallegu langermakjólarnir mínir hanga ónotaðir inni á skáp og gráta. Og fataskápurinn minn samanstendur nú af flíkum sem ég hef engan skilning á. Stuttbuxur, er það eitthvað fyrir leggi sem eru hvítari en allt hvítt? Og hvað með alla þessa hlírakjóla og boli og sveru handleggina mína? Má þetta eitthvað. Það er vita vonlaust að klæða hluti eins og mjúkan maga, svera handleggi og breið læri af sér og hér stend ég berskjölduð með allt mitt!Get ekki einu sinni sett á mig maskara því hann lekur beint ofan í augu með svitataumunum af enninu. 

Og nú er ég komin með ógeð af grilluðum mat og salötum. Mig langar í heita súpu, helst franska lauksúpu og lasagna en það er ekki fræðilegur að troða sig út af slíkum dásemdum á meðan hitamælirinn neitar að fara undir 25 gráðurnar. Og framundan er svo hitabylgja, hitinn upp í 30 gráðurnar. Vísindamenn tala um heitasta ár síðan guð má vita hvenær og þurrkurinn hefur aldrei verið meiri eða verri. Borgarstjórn Santa Monica kemur saman í næsta mánuði til að ræða vatnsskömmtun til að bregðast við ástandinu og stutt í að ekki verður einu sinni hægt að skola af sér svitann með góðri samvisku.

Ljósið við enda gangnanna er þó að mér hefur verið lofað því að veðurfyrirbærið El Nino eða eitthvað álíka ætli að mæta á svæðið í október. Því á víst að fylgja dómsdagsrigning eða svo segja menn. Vona bara að hún sé alvöru rigning en ekki það sem Kaliforníubúar kalla dómsdagsrigningu en við Íslendingar köllum úða.

p.s. Urðu á þau mistök að líta á veðurspá fyrir svæðið þar sem við erum að fara í útilegu. Haldiði ekki að hitabylgja lendi akkúrat á sama tíma og við og spáin hljóðar upp á 34-36 stiga hita þá vikuna sem við verðum þar?!?

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira