Ég hef verið étin af amerísku skólakerfi. Litla stóra stelpan mín byrjaði í skóla 19. ágúst. Ég sé strax að það verður meiri vinna fyrir mig en hana, þetta hefur algjörlega tekið yfir líf mitt.
Skólinn okkar þykir fínasti skóli Santa Monica, það var fyrir einskæra heppni að gatan okkar tilheyrir póstnúmerinu sem fær aðgang að þessum skóla, einni götu neðar og við værum í öðrum skóla. Ég bý sumsé í útjaðrinum. Þarna fæ ég að kynnast skólakerfinu eins og maður sér það í bíómyndunum með sturluðum PTA (Parent Teacher Association) mæðrum og preppí vel tönuðum pöbbum. Börnin eru vel greidd og fallega klædd og mörg búin að vera í rándýrum leikskólum þar sem þau hafa lært menntaskólastærðfræði og bókmenntir síðan þau voru í bleyjum. Og svo eru það íslensku tröllin eins og ég er viss um að þau kalli okkur.
PTA samtökin sjá um að gera skólann að besta skóla Los Angeles og aðferð þeirra til þess er að seilast eins djúpt ofan í vasa foreldranna eins og hægt er. Ekki misskilja mig, þetta er opinber skóli og á að vera ókeypis. En eins og vel straujaða formannsmóðirin sagði okkur oft á fyrsta fundi: "Það er ekkert sem heitir ÓKEYPIS góður public skóli". Þau nota orð eins og "silent auctions", "country clubs", "minimum ask" og svo framvegis. Þessu fylgir að við höfum orðið að skrifa bankanum og óska eftir að taka skref til fortíðar með því að fá sent ávísunarhefti. Ófáar ávísanir sem þarf að skrifa undir á næstu árum. Ef maður leyfir sér að grenja eitthvað undan peningaplokkinu minna þeir á að við séum ekki lengur að greiða himinháu leikskólagjöldin svo þetta geti ekki verið svona slæmt.
Ef það væru bara peningar sem þeir vildu frá manni þá gæti maður kannski látið gott heita. En nei. Það er ætlast til þess að maður sitji í einhverju fjalli af nefndum, starfi í skólastofu barnsins vikulega og mæti á viðburði sem virðast vera að lágmarki vikulega. Ég er nú þegar búin að skrifa frá mér þriðjudagana og komin í eina nefnd. Það var þó ýjað góðlátlega að því að ef við gætum skrifað nógu háa tölu á ávísunina þá kæmist maður undan öllu þessu, en talan þarf þá að vera skrambi há.
Við sóttum fyrsta kvöldviðburðinn okkar af mörgum í síðustu viku. "Back to School" kvöld. Ég var guðslifandi fegin þegar þeir tóku ekki þjóðsönginn í upphafi en hefði ekki átt að hrósa happi of snemma. Í staðinn voru kennararnir kynntir inn undir tónlist og fjölskrúðugum orðum, svona eins og þegar hnefaleikakappar eru kynntir inn til leiks. Þegar kvöldinu var lokið leið mér eins og ég þyrfti áfallahjálp, á leið í gjaldþrotameðferð eftir peningaplokkið og andlega uppgefin eftir að hafa heyrt um öryggisreglur skólans, t.d. þegar óður byssumaður kemur á skólalóðina nú og svo jarðskjálftaundirbúninginn, neyðarsms skilaboðalistann sem er nauðsynlegt að vera á og svo mætti lengi telja.
Dóttirin heyrir ekkert af þessu. Hún elskar kennarann sinn heitt og æðir af stað í skólann á morgni hverjum spennt og hamingjusöm. Eins og á að vera. Móðirin hinsvegar þyrfti að hitta lækni og fá uppáskrifað róandi.
Í næstu viku: Sjálfboðaliði í skólanum á þriðjudegi og svo mixer fyrir foreldrana á heimili kennarans. Vikan á eftir? Mixer fyrir alla nýja foreldra í skólanum. Hvar er hann haldinn? Á einhverju mansioni eins foreldrisins. Ég er þegar farin að svitna yfir sjálfri mér og vandræðaganginum í fjölmenni.